Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bann við lausagöngu katta í Norðurþingi umdeilt

04.11.2021 - 14:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Í Norðurþingi hefur lausaganga katta verið bönnuð í meira en áratug. Kattaeigendur á Húsavík eru almennt ekki sáttir við bannið. Þeir íhuga að reyna að fá það fellt úr gildi og að fundin verði málamiðlunarlausn.

Kattaeigendur ekki sáttir við bannið

Ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar um að banna lausagöngu katta hefur vakið miklar og heitar umræður. Áætlað er að bannið taki gildi 2025.

Silja Jóhannesar Ástudóttir, kattaeigandi á Húsavík, segir að þrátt fyrir að lausaganga katta hafi verið bönnuð í þetta langan tíma séu kattaeigendur langt frá því að vera sáttir við bannið. 

„Það hafa verið samræður okkar á milli varðandi akkúrat aðferðafræðina og hvort það sé ekki hægt að fara einhvern milliveg og reyna frekar að koma til móts við sem flesta í samfélaginu. Í staðinn fyrir boð og bönn á ákveðna lífshætti fólks sem að kannski skiptir það heilmiklu máli í daglegu lífi.“

Ekki allir sáttir sem innikettir

Gæludýr skipta eigendur þeirra svo miklu máli að hamingja dýranna hafi áhrif á hvernig þeim líður, segir Silja. Sumir kettir séu vissulega sáttir innikettir en það eigi alls ekki við um þá alla. „Það er auðvitað í eðli katta að vera úti og leika sér og fá ferskt loft eins og við þekkjum sjálf,“ segir Silja.

Smári J. Lúðvíksson, umhverfisstjóri Norðurþings, sér um að banninu sé framfylgt. Dýrin séu fönguð annað hvort af mönnum eða með því að lokka þau í gildru. „Síðan ef við föngum dýrið athugum hvort það er skráð, þá er frekar einfalt fyrir okkur að  hafa upp á eigandanum,“ segir Smári. Eigendunum er síðan gert að greiða sekt.

Silja segir að almennt hlíti kattaeigendur reglunum en það sé ákveðið álag að passa sífellt að kettirnir sleppi ekki út.

„Það eru t.d. börn sem eiga ketti, þá er þetta eins og Grýla. Hvað gerist ef kötturinn sleppur út? Þau eru dauðsmeyk um að kettirnir þeirra verði gómaðir og jafnvel gert mein,“ segir Silja.