Lofa 100 milljörðum dollara árlega til þróunarríkja

Mynd: EPA-EFE / BLOOMBERG POOL
Fulltrúar ríkustu landa heims á loftslagsráðstefnunni í Glasgow reyna nú að ná samkomulagi um að efna gamalt loforð um að veita árlega 100 milljarða dollara þróunaraðstoð í loftslagsmálum. Ungmennafulltrúi Íslands á ráðstefnunni telur efnameiri ríkin bera mikla ábyrgð á að leysa loftslagsvandann. 

Sjónum var beint að fjármálum á ráðstefnunni í dag. Árið 2009 lofuðu efnameiri ríki heims að láta samtals hundrað milljarða dollara á ári renna til þeirra efnaminni - til að þau gætu brugðist við afleiðingum loftslagsbreytinga, svo sem þurrki og flóðum en líka svo þau gætu þróast á umhverfisvænan hátt. Þetta gekk ekki eftir en viðræður eru hafnar á ný og fari þær á besta veg næst markmiðið á næsta ári. 

Fjármálaráðherra Breta, Rishi Sunak, sagði á ráðstefnunni í dag að mikið hefði mætt á efnaminni ríkjum á tímum heimsfaraldurs og loftslagsbreytinga. „Þess vegna ætlum við að ná markmiðinu um 100 milljarða dollara til þróunarlanda. Við höfum ekki náð markmiðinu enn en vinnum hörðum höndum að því, með þróunarlöndum, að gera meira til að ná markmiðinu fyrr.“

Ungmennafulltrúi Íslands á ráðstefnunni, Finnur Ricart, telur að efnameiri ríki eigi að láta meira af hendi rakna til þeirra efnaminni. „Af því að það er sögulega þannig að rík lönd hafa losað miklu meira en þróunarríki og þar af leiðandi bera þau miklu meiri ábyrgð á því að leysa vandann og eiga að hjálpa þróunarríkjum að komast yfir það að þurfa að nota kol og annan mengandi iðnað í sinni þróun,“ segir Finnur.

Mynd með færslu
Finnur Ricart, ungmennafulltrúi Íslands á loftslagsráðstefnunni.  Mynd: RÚV

Þjóðarleiðtogar yfir hundrað ríkja samþykktu í vikunni að hætta allri skógareyðingu fyrir árið 2030. Þá eiga milljarðar að renna úr sjóði til þeirra sem þurfa á að halda vegna afleiðinga þessa. 

Chief Ninawa, leiðtogi fimmtán þúsund manna þjóðar í Brasilíu og Perú, Huni Kui-fólksins, telur ólíklegt að fjármunirnir skili sér til frumbyggja sem búi í skógunum og hafi orðið fyrir barðinu á skógareyðingu. „Þó að þetta séu fjárfestingar fyrir milljarða þá leysa þær ekki vandann. Þær leysa ekki félagsleg vandamál hjá okkur, þar sem það er ekkert rennandi vatn, þar sem skógareyðing er, þar sem ár eru mengaðar. Þessar fjárfestingar leysa ekki þess konar vanda. Þær eiga aðeins eftir að gagnast fyrirtækjum sem halda áfram að menga.“