Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hafa rætt stjórnarmyndun í rúmar fimm vikur

Mynd með færslu
 Mynd: grafík: Geir Ólafsson - RÚV
Formenn stjórnarflokkanna hittast á föstudag til að halda áfram viðræðum um myndun ríkisstjórnar. Formenn Vinstri grænna og Framsóknar koma heim af þingi Norðurlandaráðs á morgun. Undirbúningskjörbréfanefnd fundar stíft á sama tíma og er niðurstöðu hennar beðið. Gangi allt eftir gæti ný ríkisstjórn litið dagsins ljós um miðjan mánuðinn.

 

Undirbúningskjörbréfanefnd hefur fundað stíft síðan í byrjun október, þegar til hennar var stofnað, og sagði Birgir Ármannsson formaður nefndarinnar í samtali við fréttastofu í morgun að svo yrði áfram alla þessa viku. Í vikulok verði síðan að sjá til hvort hillir í niðurstöðu um helgina.

Stjórnarmyndun staðið í rúmar fimm vikur

Formenn stjórnarflokkanna hittast á fundi á föstudag en hlé hefur verið á formlegum fundum þessa vikuna vegna loftslagsráðstefnunnar í Glasgow og Norðurlandaráðsþings í Kaupmannahöfn. Formennirnir segja góðan gang í viðræðunum en þær hafa engu að síður staðið núna í rúmar fimm vikur.

Eftir síðustu kosningar liðu rétt rúmar fjórar vikur frá kosningum þangað til ný ríkisstjórn var kynnt.  Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins sagði hins vegar í Kastljósi fyrir helgi að gangi allt eftir gæti ný ríkisstjórn litið dagsins ljós um miðjan mánuðinn. 

Ríkisstjórnin hélt velli í alþingiskosningunum sem þýðir að það er ríkisstjórn við völd. Þannig má telja víst að vinna við fjárlagafrumvarp næsta árs sé langt komin og því þurfi stjórnarflokkarnir ekki langan tíma frá stjórnarmyndun fram að þingsetningu.

Þegar fyrir liggur stjórnarsáttmáli um málefni og niðurstaða um skiptingu ráðuneyta bera formennirnir þau mál undir þingflokka og flokksráð flokkanna áður en blásið verður til blaðamannafundar þar sem ný ríkisstjórn verður formlega kynnt. 

 

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV