Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fá bætur vegna ólögmætrar myndbirtingar af slysstað

03.11.2021 - 01:20
epa08183616 An image showing late former Los Angeles Lakers player Kobe Bryan and his daughter Gianna is displayed during a memorial at LA live in Los Angeles, USA, 31 January 2020. Retired Los Angeles Lakers player Kobe Bryant died in a helicopter crash on 26 January 2020. He was 41.  EPA-EFE/ADAM S DAVIS
 Mynd: EPA
Ættingjum fólks sem fórst í þyrluslysi ásamt körfuboltamanninum Kobe Bryant og Giönnu 13 ára dóttur hans verða greiddar bætur vegna ólögmætrar myndbirtingar af slysstað. Málaferli ekkju Bryants vegna sama máls standa enn yfir.

Lögreglu- og slökkviliðsmenn á vegum Los Angeles-sýslu tóku myndir í óleyfi á slysstað og deildu þeim með öðrum. Alls fórust níu í slysinu.

Yfirvöld í sýslunni féllust á að greiða samtals 2,5 milljónir Bandaríkjadala í bætur til Matthew Mauser sem missti konu sína í slysinu og til systkinanna JJ og Alexis Altobelli en foreldrar þeirra og systir fórust einnig.

Samkomulagið nær ekki til Vanessu ekkju Bryants en málaferli standa enn yfir vegna þeirra þjáninga sem birting mynda björgunarfólksins olli henni.  Talið er að slysið megi rekja til þess að flugmaður þyrlunnar tapaði áttum þegar hún flaug inn í skýjaþykkni.

Kobe Bryant var einn besti körfuknattleiksmaður sögunnar en hann lagði skóna á hilluna 2016. Hann tók átján sinnum þátt í Stjörnuleik NBA-deildarinnar, vann fimm meistaratitla og var tvívegis valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar.