Auka samstarf um neyðarviðbúnað

03.11.2021 - 15:37
Mynd: EPA-EFE / RITZAU SCANPIX
Norðurlöndin ætla að auka samstarf sitt um neyðarviðbúnað, er meðal þess sem segir í sameiginlegri yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlandanna sem kynnt var á þingi Norðurlandaráðs í morgun.  

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hafi sýnt mikilvægi þess að vera við öllu búin, segir sömuleiðis í yfirlýsingu ráðherranna, sem vilja stuðla að sameiginlegum undirbúningi fyrir hvers kyns neyðarástand eða kreppur.

Loftslagsmál, og öryggis- og varnarmál voru sömuleiðis til umræðu á fundi ráðherranna í dag. Þá flutti Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlandshafsbandalagsins, ræðu í þingsal í Kaupmannahöfn í morgun. 

Á fundinum voru norrænu forsætisráðherrarnir og oddvitar sjálfstjórna Álandseyja, Færeyja og Grænlands. Norðurlandaráðherra Svíþjóðar, Anna Hallberg, var staðgengill forsætisráðherra Svíþjóðar. 

„Norrænt samstarf er tæki sem gerir norrænu löndunum kleift að auka viðbúnað sinn og þanþol. Með því að greina norrænt samstarf á sviði neyðarviðbúnaðar og annars viðbúnaðar byggjum við upp Norðurlönd sem eru skilvirk við alls konar aðstæður,“ sagði Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, á blaðamannafundi í Kristjánsborgarhöll í morgun. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV