Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Öll erum við með geð rétt eins og við erum með hjarta"

Mynd með færslu
 Mynd: Geðhjálp - Aðsend
Við búum öll við geð rétt eins og við erum með hjarta. Það eru skilaboð Geðlestarinnar sem heimsækir nú grunn- og framhaldsskóla landsins.

Þetta er í fyrsta skipti sem Geðlestin fer um landið og fræðir ungmenni. Lestin er nú á Vestfjörðum og fer þaðan norður í land. Grímur Atlason er framkvæmdastjóri Geðhjálpar, sem stendur fyrir verkefninu ásamt hjálparsíma Rauða krossins. Hann segir að heimsóknir Geðlestarinnar séu hugsaðar sem upphafið á fræðslu fyrir nemendur um geðheilsu og geðrækt.

„Hugmyndin er að koma með geðræktandi verkefni sem þau geta nýtt sér með kennurum. Foreldrar eða forráðamenn geta farið og nýtt sér það sem við erum að bjóða upp á. Þetta eru svona einhvers konar kveikjur sem hægt er að nota til þess að huga að geðheilsunni," segir hann. 

Mikilvægt að hefja geðfræðslu snemma

Heimsóknir Geðlestarinnar eru byggðar upp af fyrirlestrum og myndböndum, umræðu og tónlistaratriðum. Grímur segir mikilvægt að byrja geðfræðslu sem allra fyrst og að hefja samtalið strax á unga aldri. Heimsóknirnar hafi gengið vel og krakkarnir séu móttækilegir fyrir skilaboðunum. 

„Það koma mjög margar áhugaverðar spurningar sem skipta máli og er gott að geta svarað." 

Skilaboðin eru þau að við búum öll við geð rétt eins og við erum með hjarta. Jafn eðlilegt eigi að vera að huga að geðheilsu sinni og líkamlegri heilsu. 

„Jafnvel þegar maður þarf að leita sér hjálpar, og mikilvægt að gera það að sjálfsögðu, en að fatta það að þótt maður fái kvef þá er maður ekki kvef. Og frunsu þá er maður ekki frunsa. Það er svo mikilvægt að fara inn í þetta strax, maður átti sig á þessu." 

Mynd með færslu
 Mynd: Geðhjálp - Aðsend
Geðlestarteymið sem fer nú um landið