Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Mörkin á mannlegu atferli

Mynd: MM / Kiljan

Mörkin á mannlegu atferli

02.11.2021 - 14:30

Höfundar

Fríða Ísberg veltir upp áhugaverðum siðferðisspurningum í fyrstu skáldsögu sinni sem gerist á Íslandi í náinni framtíð. „Það er verðugt verkefni skáldskapar að kanna mörkin á mannlegu atferli og reyna skilja hvernig þau geta verið á skjön við hugmyndir og hugsjónir sem í sjálfum sér geta verið af hinu góða,“ segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Framtíðarsögur og sögulegar skáldsögur eiga oft sameiginlegt að fjalla ekki endilega um framtíðina eða fortíðina, heldur einmitt samtíma sinn og það finnst mér eiga við í þessu tilviki. Þessi fyrsta skáldsaga Fríðu Ísberg, Merking, fjallar um fólk á Íslandi í nokkuð náinni framtíð að manni finnst, að minnsta kosti eftir árið 2042, svo mikið kemur fram, en margt í þessari sögu vísar einhvern veginn til umliðinna ára í íslensku þjóðfélagi. Titillinn, Merking, er tvíræður og snýst á yfirborðinu um að sögupersónur sem taka tiltekið samkenndarpróf láti síðan merkja sig hafi þær náð því. Þetta próf sannar að viðkomandi er ekki siðblindur, eða siðraskaður, eins og þar er að orði komist. Það fólk sem hefur þessa merkingu getur síðan lokað sig af í sínum eigin hverfum og nútímatækni tryggir að ómerkingarnir geta ekki valsað um þau að vild.

Sagan vekur fjölmörg hugrenningatengsl við samtímann, ekki bara samheldnina í kófinu, meðan þjóðin marséraði mikið til í takt við sóttvarnayfirvöld, heldur líka orðræðuna á netinu, um góða fólkið og annað þvíumlíkt. Þegar sagan gerist stendur til að kjósa um hvort samkenndarprófin verði gerð skyldubundin og það liggur í hlutarins eðli að fari svo verður allauðvelt að útiloka það fólk sem ekki hefur staðist prófið og er líklegt til að vera andstæðan við góða fólkið sem hefur staðist það. Mér kom líka strax í hug kvikmynd Stanleys Kubricks, A Clockwork Orange, þar sem söguhetjan er „læknuð“ af siðblindu, en það má einnig sjá í sögunni að sálfræðingarnir í kosningabaráttunni hamra á því að það sé hægt að bæta úr því þótt fólk falli á prófinu. Sagan snertir líka á ýmsum öðrum málefnum, eins og heimilisofbeldi og ofbeldi karla í samböndum þegar þeir ofsækja konur sem þeir hafa verið með. Fleira væri hægt að tína til, en þræðirnir liggja margir til siðferðisspurninga í samtíma okkar þrátt fyrir að sagan gerist síðar á þessari öld.

Bygging sögunnar er nokkuð „faulknerísk“, ef svo má segja, hver kafli er sjónarhorn einnar sögupersónu þótt sagan sé sögð í þriðju persónu, undantekning þar á eru tvær persónur sem skrifast á og eru þau bréf vitanlega í fyrstu persónu og markeruð með skáletrun í textanum. Þær tvær eru dálítið ótengdar öðrum persónum sem við sjáum smátt og smátt að tengjast innbyrðis. Annað eftirtektarvert atriði af þessum toga er frásagnartöfin sem greinilega er markvisst unnin þannig að bakgrunnssögur persónanna og í raun orsakir ástandsins í lífi þeirra koma ekki fram fyrr en nálgast tekur lok bókarinnar. Þessi anakrónismi getur virkað dálítið ruglandi framan af, því það er eins og söguröddin geri ráð fyrir að þessi bakgrunnur sé gefinn; sem dæmi má nefna konuna sem hefur þurft að fá nálgunarbann á einn aðila, við skiljum vel að það hlýtur að vera eitthvað á bak við það, en fáum ekki fulla skýringu fyrr en síðar í sögunni. Um leið fá persónurnar þá fyllingu sem manni fannst kannski vanta í fyrstu og er þetta frumleg leið til að byggja upp sögu.

Stíll og málfar eru breytileg eftir því hvaða persóna er í forgrunni. Þetta á kannski helst við um unglinginn Tristan, sem er í dópi og þjófnuðum og leikur býsna stórt hlutverk í sögunni, hann er að miklu leyti örlagavaldur og tengist flestum hinna með einhverjum hætti, þó ekki sé nema með því að brjótast inn hjá einhverri þeirra. Orðfærið í Tristansköflunum er enskuskotið og söguröddin beitir þágufallssýkinni miskunnarlaust til að merkja Tristan sem ungan og óheflaðan mann. Höfundurinn er hins vegar með gott vald á tungumálinu og það sést vel þegar lengist í málsgreinum eins og þegar Alexandria er að hugleiða líf sitt og barna sinna í 17. kafla; það er kannski ekki alveg Molly Bloom, en það er hressandi að sjá unga höfunda treysta sér svona langt út fyrir aðalsetningarnar, því þannig verður prósinn að skáldskap að mínum dómi.

Framtíðarsögur verða að spá einhverju um tækni framtíðar, ekkert síður en hugsunarhátt hennar, og höfundur hefur að mörgu leyti gert það trúverðuglega, mest er grundvallað á því sem þekkt er nú þegar, en gert framúrstefnulegra, eftirlit með fólki öryggis þess vegna í svokallaðri „Samfylgd“ er til að mynda nokkuð hrollvekjandi, en vel hægt að hugsa sér að hlutirnir þróist í þá áttina. En mér varð líka hugsað til kvikmyndarinnar 1984 frá einmitt því ári, en eitt það frumlegasta við þá mynd var að tæknin í henni átti sér fullkomna samsvörun í tækni ritunarársins, 1948. Framtíðarhryllingur þessarar sögu felst kannski helst í því að það eru allir enn á bílum nema dópistinn Tristan, en hann ferðast stundum með einhverjum lestarlínum á milli staða, en heilt yfir er ekkert sem truflar á tæknisviðinu sem skiptir máli í framtíðarsögu.

Vitanlega eru þó siðferðisspurningarnar það sem höfundi liggur á hjarta og þær snerta ýmis svið mannlífsins, hvernig við skilgreinum aðrar manneskjur og flokkum eru þar helstar. Þetta kemur vel fram í bréfunum áðurnefndu sem eru að sumu leyti þematísk fyrir söguna; þar takast tvær konur á um samskipti sín og sýn þeirra hvor á aðra og öfugt, raunar. En er það ekki meginmarkmið siðaðs samfélags að byggja upp það sem hér er kallað samkennd eða samlíðan? Þetta fyrirbrigði, sem Aristóteles taldi ómissandi fyrir skáldskaparlistina, var líka mikið hugðarefni heimspekinga og siðfræðinga 18. aldar, og Adam Smith taldi þetta vera hreinlega grundvöllinn að siðuðu samfélagi eins og ég hef nefnt áður á þessum vettvangi.

Fríða Ísberg spyr með þessari sögu hvort hægt sé að ganga of langt í þessu efni, sýnist mér, eða hvort hætta sé á að samkenndin geti snúist upp andstæðu sína. Það er verðugt verkefni skáldskapar að kanna mörkin á mannlegu atferli og reyna skilja hvernig þau geta verið á skjön við hugmyndir og hugsjónir sem í sjálfum sér geta verið af hinu góða, en sé þeim veitt vald yfir öðrum manneskjum geta orðið til ills. Svarið sem höfundur gefur í lokin með ákvörðun Tristans er, eins og titill sögunnar, nokkuð tvírætt, án þess að ég nefni hvert það er, en það vekur upp fleiri spurningar eftir baráttu unga mannsins við sínar vindmyllur, eigum við að fella alla í sama mót til að tryggja öryggi okkar eða þola mismuninn með öllum sínum ókostum? Ekki get ég svarað því, en það er alltaf gott lesa bækur sem krefja okkur svara við slíkum spurningum.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Við erum að upplifa svo rosalega klofna tíma“