Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Eðlilegt að hömlur séu á tjáningarfrelsi lögreglu

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Ríkari kröfur eru gerðar til lögreglumanna vegna eðlis starfans, sagði Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun þegar hún var spurð út í ummæli lögreglumanns á samfélagsmiðlum. Hún sagðist ekki geta tjáð sig um málefni einstakra starfsmanna.

Halla Bergþóra sagði að opinberir starfsmenn megi tjá sig, en mannréttindadómstóll hafi sagt að það sé eðlilegt og viðurkennt að leggja megi hömlur á tjáningarfrelsi vegna eðlis starfa. „Rökin fyrir takmörkun á tjáningarfrelsi hjá okkur er að við þurfum að njóta trausts almennings, og almenningur þarf að geta treyst því að við leysum okkar skyldur af hendi af hlutleysi,“ sagði Halla Bergþóra í Morgunútvarpinu.

Margrét Kristín Pálsdóttir, yfirlögfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti um helgina að embættinu hafi borist ábendingar vegna nýlegra ummæla lögreglumanns á samfélagsmiðli. Þar tjáði lögreglumaðurinn sig til að mynda um ásakanir á hendur tónlistarmanninum Ingólfi Þórarinssyni. Auk þess hefur lögreglumaðurinn tjáð sig um þolendur kynferðisbrota á samfélagsmiðlum. Sami lögreglumaður varð að fjarlægja merki af búningi sínum sem tengjast hatursorðræðu og öfgasamtökum. Síðar birti hún myndir af sömu merkjum innrömmuðum.

Halla Bergþóra sagði að bæði í lögum um lögreglu og siðareglum lögreglumanna séu ákvæði um að lögreglumenn eigi ekki að aðhafast neitt sem geti dregið óhlutdrægni þeirra í efa. Þeir verði að gæta orða sinna í hvívetna, þar á meðal við skoðanaskipti á samfélagsmiðlum. 

Halla Bergþóra sagði að brot á siðareglum séu skoðuð í hverju tilviki fyrir sig, með tilliti til þess hvað sé hægt að gera og hvað megi gera. Hún sagðist ekki hafa fengið ábendingar um þetta tiltekna mál fyrr en það var tekið fyrir í fjölmiðlum. Loks sagðist hún aldrei í starfi sínu hafa beint því til starfsfólks í lögreglunni að eyða færslum af samfélagsmiðlum, og kvaðst ekki vita til þess að annar hafi gert það.