Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tvö dónaleg haust – Miðaldra

Mynd: Tvö dónaleg haust / Miðaldra

Tvö dónaleg haust – Miðaldra

01.11.2021 - 16:40

Höfundar

Hljómsveitin Tvö dónaleg haust er þrítug í ár og hátt í 20 ár frá útkomu síðustu plötu þeirra sem hét Mjög fræg geislaplata. Í tilefni af því, stöðugum tónlistarlegum þorsta og þörfinni fyrir að skapa saman, hefur sveitin nú í þrjú ár unnið að plötunni Miðaldra um persónulega nústöðu sína í framrás tímans eins og segir í tilkynningu frá sveitinni.

Sveitina Tvö dónaleg haust skipar sjö manna kjarni sem kynntist í Menntaskólanum á Akureyri. Það eru Guðmundur Ingi Þorvaldsson sem syngur spilar á gítar og munnhörpu, Tryggvi Már Gunnarsson á gítar, Stefán Gunnarsson á bassa, Sigfús Ólafsson á trommur, Skúli Magnús Þorvaldsson á trompet, Ómar Örn Magnússon á básúnu, Þórður Gunnar Þorvaldsson á orgel og þær Hildur og Rakel Magnúsdætur sem syngja bakraddir.

Platan Miðaldra fjallar eins og nafnið gefur til kynna um áfallið sem fylgir því að átta sig á að maður sé orðinn miðaldra og er að sögn sveitarinnar hárbeitt og húmorísk skoðun á veruleika þeirra sem miðaldra karlmanna.

Plata vikunnar er Miðaldra frá sveitinni Tvö dónaleg haust. Hún verður spiluð eftir tíufréttir í kvöld ásamt kynningum frá þeim Ómari Erni og Tryggva Má auk þess að vera aðgengileg í spilara.