Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Starfsmenn Eflingar upplifa óöryggi í starfi

01.11.2021 - 16:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Í ályktun starfsmannafundar Eflingar sem send var stjórninni síðastliðinn föstudag er lýst yfir að full ástæða hafi verið fyrir þeirri ályktun sem trúnaðarmenn Eflingar samþykktu í sumar. Þar segir líka að stór hluti starfsmanna upplifi eða hafi upplifað óöryggi í starfi.

Eftir starfsmannafundinn á föstudag voru sendar tvær ályktanir, ein til fréttastofu RÚV þar sem sagt var að vilji væri til að leysa málið innanhúss, en hin var send stjórn Eflingar. Þar er farið fram á reglulega starfsmannafundi án stjórnenda og að eins verði reglulegir fundir trúnaðarmanna með stjórnendum. Þá var þess krafist að stjórnendur myndu bregðast við og leysa vandann. Eins og fram hefur komið sagði Sólveig Anna Jónsdóttir af sér sem formaður Eflingar og samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur Viðar Þorsteinsson einnig sagt upp starfi sínu sem framkvæmdastjóri.

Sumarliði Ísleifsson, lektor við Háskóla Íslands, sem skrifaði sögu Alþýðusambandsins man ekki dæmi um neitt þessu líkt innan verkalýðshreyfingarinnar áður. „Við skulum segja að þetta sé nánast óþekkt í sögu íslenskrar verkalýðshreyfingar,“ segir Sumarliði.

Hann segir vissulega oft hafa verið tekist á innan hreyfingarinnar en heldur rólegt hafi verið frá 1990, þar til nú. „Það hefur gengið í endurnýjun lífdaga síðustu árin. Það hefur komið fram miklu meiri meiningarmunur heldur en var um það hvaða stefnu verkalýðshreyfingin ætti að taka og þetta er líka angi af því, það er líka hluti af skýringunni að það eru mjög deildar meiningar um það hvert verkalýðshreyfingin eigi að stefna,“ segir Sumarliði.