Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Starfsfólk vildi leysa málið innanhúss

01.11.2021 - 11:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Starfsfólk Eflingar óskaði þess að halda starfsmannamálum utan kastljóss fjölmiðla og kom það fram í yfirlýsingu sem send var RÚV á föstudaginn.

Við vinnslu fréttar RÚV sem birt var í kvöldfréttum sjónvarps á föstudaginn var haft samband við Sólveigu Önnu Jónsdóttir, formann Eflingar. Var óskað eftir svörum vegna ályktunar sem trúnaðarmenn Eflingar samþykktu í júní og fjallaði um starfsmannamál innan félagsins. Ekki bárust svör frá Sólveigu Önnu en fréttastofu barst tölvupóstur frá trúnaðarmanni Eflingar sem innihélt yfirlýsingu starfsmanna. Hún er svohljóðandi:

„Þau mál sem um ræðir eiga ekki heima í fjölmiðlum og verða í engu bætt með umfjöllun þar. Það er vilji starfsfólks að þetta sé leyst innanhúss.Fjölmiðlaumfjöllun er ekki að ósk starfsmanna.“

Sólveig Anna vísar til þessarar yfirlýsingar í færslu á Facebook þar sem hún tilkynnir um uppsögn sína. Yfirlýsingin hafi verið samin á starfsmannafundi á föstudaginn. Í upphafi fundar hafi hún farið fram á að starfsmenn sendu frá sér yfirlýsingu þar sem efni ályktunarinnar frá í júní yrði dregið tilbaka, ella myndi hún segja af sér.

Niðurstaða fundarins var sú að starfsmenn sendu frá sér tvær yfirlýsingar, annars vegar yfirlýsingu til stjórnenda sem Sólveig segir að hafi staðfest álytkun trúnaðarmanna frá í júní og hins vegar yfirlýsing til RÚV sem vitnað er til hér að ofan.