Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Axlaði pólitíska ábyrgð og sagði af sér

01.11.2021 - 16:10
epa09556677 (FILE) North Macedonian Prime Minister Zoran Zaev (R) gestures during the press conference after the Serbia, North Macedonia and Albania high level trilateral meeting in Novi Sad, Serbia, 10 October 2019 (reissued 31 October 2021). North Macedonian Prime Minister Zoran Zaev on 31 October 2021 announced his resignation as a Prime Minister and from the leader of SDSM Party, after his party lost in the second round of local elections.  EPA-EFE/ANDREJ CUKIC
 Mynd: EPA-EFE
Zoran Zaev, forsætisráðherra Norður-Makedóníu, tilkynnti afsögn í dag, eftir að flokkur hans fékk slæma útreið í sveitarstjórnarkosningum um helgina. Hann telur enga þörf á að boða til þingkosninga þrátt fyrir afsögnina.

Zoran Zaev sagði á fundi með fréttamönnum í Skopje, höfuðborg Norður-Makadóníu, í dag að árangur Jafnaðarmannaflokks hans um helgina væri óviðunandi. Hann hefði komið á frelsi og lýðræði í landinu. Samkvæmt lýðræðisreglum yrði einhver að axla ábyrgð á útreiðinni og það ætlaði hann að gera. Zaev sagðist ekki sjá ástæðu til að boða til þingkosninga þrátt fyrir það, en helsti stjórnarandstöðuflokkurinn krafðist þess þegar eftir afsagnartilkynninguna. 

Zaev var kjörinn forsætisráðherra árið 2017 eftir að hægrimenn höfðu verið við völd í tíu ár undir stjórn Nikola Gruevskis. Upp komst að stjórnvöld og leyniþjónustan höfðu árum saman hlerað síma tuttugu þúsund landsmanna. Zaev, sem var leiðtogi stjórnarandstöðunnar, upplýsti einmitt um hneykslið. Gruevski hrökklaðist frá og leitaði pólitísks hælis í Ungverjalandi til að komast hjá því að afplána fangelsisdóm vegna spillingar. 

Ári eftir að Zaev tók við völdum samdi hann við Grikki um að Makedónía fengi nafnið Norður-Makedónía. Nýtt nafn var skilyrði þess að landið gæti sótt um aðild að Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu. Búlgarar hafa hótað að koma í veg fyrir að Norður-Makedóníumenn fái aðild að ESB vegna tungumáladeilna.