Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hryllingur sem er hjartans mál

Mynd: Netflix / Netflix

Hryllingur sem er hjartans mál

31.10.2021 - 10:00

Höfundar

Netflix-serían Midnight Mass er persónulegur hryllingur, samofinn hverfulleika manneskjunnar og krafti samfélagsins þegar trúin á hið góða yfirgnæfir heilbrigða skynsemi, segir Katrín Guðmundsdóttir gagnrýnandi.

Katrín Guðmundsdóttir skrifar:

Að mínu mati er algjör skylda að horfa á nokkrar hryllingsmyndir í aðdraganda hrekkjavökunnar en sjálf horfi ég nær eingöngu á hrollvekjur og annað drungalegt efni þennan mánuðinn. Ég er sem sagt ein af þeim sem er algjörlega forfallin fyrir fagurfræði myrkurs og annarleika – okkur sem elskum hrekkjavökuna. Okkur til mikils yndisauka hafa streymisveitur tekið þennan málaflokk upp á sína arma og sinnt honum af mikilli elju undanfarin ár. Afurðirnar eru vissulega misjafnar en það stoppar okkur áhugafólkið varla, enda þefum við uppi allt sem gæti mögulega vakið hjá okkur óhug.

Síðustu tvö ár hefur Netflix frumsýnt tvær vandaðar þáttaraðir á þessum tíma ársins, The Haunting of Hill House og The Haunting of Bly Manor. Báðar eru eftir Mike Flanagan, ungan en þó reynslumikinn kvikmyndagerðarmann, sem sumir vilja meina að sé einn helsti höfundur hrollvekjugreinarinnar nú á dögum. Hér á ég við franska hugtakið „auteur” sem vísar til leikstjóra sem hefur svo sterkt listrænt vald yfir myndum sínum að hann telst vera höfundur þeirra. Ég var mjög hrifin af báðum þáttaröðunum og var því nokkuð örvæntingarfull í byrjun september, þegar ekkert var farið að bera á kynningarefni fyrir þá næstu. Það var nefnilega ekkert reimleikahús þetta árið en Google lofaði þó nýju og dálítið öðruvísi verki eftir Flanagan. Hinni martraðarkenndu Midnight Mass.

Flanagan ber greinilega mikla virðingu fyrir kanónum hryllingshefðarinnar því auk þess að hafa byggt Hill House á samnefndri skáldsögu eftir Shirley Jackson og Bly Manor á The Turn of the Screw eftir Henry James hefur hann viðurkennt að vera mikill aðdáandi Stephens Kings. Það er ekki nema von, enda er maðurinn fæddur og uppalinn í Salem í Massachusetts – vöggu bandarískrar hrollvekju. Í þessari nýju þáttaröð sækir hann síðan innblástur í eina elstu og áhrifamestu hryllingssögu allra tíma, Drakúla eftir Bram Stoker.

Sagan segir frá örsamfélagi íbúa í niðurníddu sjávarplássi á afskekktri eyju í Bandaríkjunum. Söguhetjan, Riley, er nýfluttur heim til foreldra sinna eftir að hafa afplánað fjögurra ára fangelsisdóm fyrir að verða ungri konu að bana þegar hann keyrði á hana fullur. Ástandið er því ansi dapurlegt þegar ungur og óþekktur prestur, séra Páll, siglir í höfn til að leysa aldraðan sóknarprestinn af í veikindaleyfi. Öllum að óvörum reisir séra Páll samfélagið við með kaþólsku og ævintýralegan sannfæringarkraft að vopni. Samhliða endurvakningu og uppgangi trúar þorpsbúa fara svo yfirnáttúrulegir hlutir að eiga sér stað sem kirkjunnar menn vilja meina að séu kraftaverk. Riley, sem er fullur af tómlæti og vantrú á bæði tilgang lífsins og æðri mátt, er hins vegar ekki jafn sannfærður um ágæti séra Páls og trúboðs hans.

Ég hef lesið, horft á og spilað marga tugi ef ekki hundruð verka sem byggja með einum eða öðrum hætti á framannefndum vampírugreifa og verð að viðurkenna að ég var bara nokkuð hrifin af framlagi Flanagans. Þættirnir eru reyndar dálítið lengi í gang en það má auðveldlega fyrirgefa og njóta í millitíðinni drungalegra hughrifa hins myndræna, sem fangar svo vel bæði einangrunina og angistina sem einkennir allt samfélagið á eyjunni. Andrúmsloftið sem við hryllingsfíklarnir sækjum svo sárlega í. Sjálft innihaldið er þó hvorki nýtt af nálinni né sérlega frumlegt ef út í það er farið, heldur aðeins sniðug hugmynd sem er bæði vandlega útfærð og stílfærð að hætti höfundarins. Sú ákvörðun að flétta saman Drakúla, sígildri hrollvekju um djöfullegt skrímsli, og samtímalegri gagnrýni á kristin trúarbrögð reynist nefnilega ótrúlega áhrifarík, jafnvel þótt manni finnist eins og maður hafi séð það alltof oft áður. Og það getur vel verið að maður hafi séð þetta allt áður en það sem stendur upp úr í þetta skiptið er handbragðið, hugsunin og hjartað.

Eftir því sem líður á þáttaröðina skynjar maður nefnilega að viðfangsefnið er höfundinum í raun og veru hjartans mál. Flanagan hefur enda sjálfur sagt frá því í viðtölum að Midnight Mass sé hans persónulegasta verk til þessa. Efniviðinn, með öllum sínum vangaveltum, sótti hann að mestu í kaþólskt uppeldi sitt og þá byggði hann aðalpersónuna á sjálfum sér, vegferð sinni til edrúmennsku og trúleysinu sem hann upplifði í kjölfar hennar. Áhorfendur ættu þó ekki að þurfa að lesa sér til um þessa persónulegu tengingu höfundarins við verkið því hún birtist mjög áberandi í löngum og heimspekilegum samtölum á milli aðalpersónanna, sem er jafnframt eitt helsta höfundareinkenni Flanagan. 

Þessi einkenni eru annars nokkuð sem flestir áhorfendur virðast hafa einhvers konar skoðun á en á meðan sumir telja rabbið aðeins vera innantómt uppfyllingarefni þykir öðrum það fela í sér bæði kjarnann og sjarmann í verkum höfundarins. Sitt sýnist hverjum. Ætli þetta sé ekki fyrst og fremst spurning um hversu gagnrýnið fólk er á innihaldið? Annars velti ég því alveg fyrir mér oftar en einu sinni á meðan áhorfinu stóð hvort þættirnir hefðu mögulega sómt sér betur sem skáldsaga. Séreinkenni kvikmyndamiðilsins virðast alla vega ekki bæta neinu við frásögnina þannig séð. Hinu myndræna mætti meira að segja gera skil í texta og það sama má segja um sjálfan hryllinginn, sem að hætti Flanagans er talsvert lágstemmdari og vitrænni heldur en við eigum að venjast – annað höfundareinkenni sem hægt er að velta sér upp úr. Í stað hefðbundins líkamshryllings, þar sem skynfæri áhorfenda fá útreið vegna misáhrifamikilla bregðuatriða, leggur hann áherslu, rétt eins og allir helstu áhrifavaldarnir, á sálfræðilegan hrylling þar sem brigðult hugarástand persónanna er í brennidepli. Örvæntið þó ekki. Það er skrímsli og nóg af blóðsúthellingum í þáttunum.

Hryllingur Midnight Mass er samofinn hverfulleika manneskjunnar og krafti samfélagsins þegar trúin á hið góða yfirgnæfir heilbrigða skynsemi. Þættirnir skilja áhorfendur eftir með óhug sem á ekkert endilega skylt við ugginn sem hrollvekjur meginstraumsins vekja gjarnan upp. Að mínu mati er þáttaröðin alls ekkert síðri en Hill House og Bly Manor. Þeir sækja augljóslega innblástur í aðra hefð hryllingsgreinarinnar en líkt og áður er umgjörðin vönduð og andrúmsloftið drungalegt. 

 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Langsótt draugatangó sem eykur teþorsta

Kvikmyndir

Framhald sem er líklegt til að falla í gleymsku

Sjónvarp

Í hrollvekjandi húsi Crain-fjölskyldunnar