Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Viðurkennir klaufagang í samskiptum við Frakka

epa09551002 US President Joe Biden speaks about the framework of his 'historic' multi-trillion dollar spending deal in the East Room of the White House in Washington, DC, USA, 28 October 2021 as US Vice President Kamala Harris looks on. Biden spoke just before leaving for the G20 in Rome, Italy.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Joe Biden Bandaríkjaforseti segir að klaufalega hafi verið staðið að samskiptum við Frakka í tengslum við Aukus-samkomulag Bandaríkjanna, Ástralíu og Bretlands. Ástralir riftu milljarðasamningi um kaup á frönskum kafbátum sem olli mikilli reiði þarlendra ráðamanna. 

Biden hitti Emmanuel Macron Frakklandsforseta á fundi í sendiráði Frakklands í Páfagarði í aðdraganda ráðstefnu G20 ríkjanna sem fram fer í Róm nú um helgina. Þetta er í fyrsta sinn sem forsetarnir tveir hittast síðan Aukus-samkomulagið var gert.

Biden sagðist hafa talið fullvíst að Ástralir hefðu upplýst Frakka um þá ætlan sína að rifta samningum sem þeir gerðu 2016 um kafbátakaupin. Viðbrögð Macrons voru þau að hann teldi mest liggja við að horfa til framtíðar.

Frakkar brugðust ókvæða við riftun samningsins, Jean-Yves Le Drian utanríkisráðherra landsins líkti framferði Ástrala við rýtingsstungu í bakið og Frakkar kölluðu sendiherra sína tímabundið heim frá Washington og Canberra.

Að loknum fundinum líkti Macron trausti milli ríkja við ástarjátningar, yfirlýsingar væru í sjálfu sér ágætar en best væri að fá ástina staðfesta. Forsetarnir ræddu einnig loftslagsmál, viðbrögð við hryðjuverkum og varnir Evrópu. 

Áður en Biden fundaði með Macron gekk hann á fund Frans páfa og lofaði framlag hans viðbragða við kórónuveirufaraldrinu, til loftslagsumræðunnar og baráttu hans fyrir bættum kjörum fátæks fólks í heiminum.

Þar næst átti Biden fund með þeim Sergio Mattarella, forseta Ítalíu og forsætisráðherranum Mario Draghi.