Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sér eftir að hafa gefið ríkinu listasafn Sigurjóns

Mynd með færslu
Viðtal við Birgittu Spur, ekkju Sigurjóns Ólafssonar. Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Birgitta Spur, ekkja myndhöggvarans Sigurjóns Ólafssonar, kveðst sjá eftir að hafa gefið íslenska ríkinu listasafn manns síns í Laugarnesi. Hún segir það siðferðilega skyldu ríkisins að skila safninu aftur hafi það ekki bolmagn til að hlúa sómasamlega að því.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag en sjálfseignarstofnun um safnið var færð íslenska ríkinu að gjöf árið 2012 en efnahagshrunið fjórum árum fyrr lék rekstur hennar grátt.

Sigurjón lést árið 1982 en Birgitta stofnaði einkasafnið LSÓ tveimur árum síðar og sjálfseignarstofnuna 1989. Birgitta segir í samtali við Fréttablaðið að ríkið hafi ekki staðið við samkomulag um rekstur safnsins og fjárveitingar til LSÓ hafi aðeins að litlum hluta skilað sér til þess.

Hún segir Lilju Alfreðsdóttur núverandi menntamálaráðherra hafa tekið vel í þá ósk að reka safnið með eigin stjórn og fjármagni en það hafi embættismenn ráðuneytisins ekki fallist á.

„Hefði ég vitað um þessa afstöðu ráðuneytisins 2012, hefði ég aldrei gefið hugverk mitt, Listasafn Sigurjóns Ólafssonar til íslenska ríkisins,“  segir Birgitta Spur. 

Þess í stað bauðst Birgittu útivistunarsamningur með árlegu fjárframlagi sem samsvari rekstrargjöldum ársins 2011. Síðasta slíks samnings hefur að hennar sögn verið í vinnslu hjá mennta- og fjármálaráðuneytum í sextán mánuði.