Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kanadastjórn vill semja um bætur til frumbyggjabarna

Rally participants hold up signs and wear orange shirts as they march down Portage Ave in support of residential school survivors and the families of missing and murdered Indigenous children in Winnipeg, Thursday, July 1, 2021. (Mike Sudoma/The Canadian Press via AP)
 Mynd: AP
Kanadastjórn vill að áfrýjunardómstóll hnekki tímamótadómi um milljarða bætur til handa börnum frumbyggja sem tekin voru af heimilum sínum og sett í fóstur. Ríkisstjórnin kveðst ekki hafna bótaskyldu í málinu en vill frekar setjast að samningaborði um hve mikið skuli greiða hverju og einu.

Í málsskjölum segir að stjórnin viðurkenni þá kerfisbundnu mismunun sem börnin hafi mátt þola og að bæta þurfi fyrir þann mikla sársauka sem framferði stjórnvalda olli.

Málið hefur velkst í kerfinu um fjórtán ára skeið og nú lýsa talsmenn innfæddra yfir miklum vonbrigðum með þetta nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar.

Tvenn samtök frumbyggja í Kanada hafa þó þegar lýst yfir vilja til þess að finna lausn á málinu fyrir árslok. Patty Hajdu, ráðherra málefna frumbyggja, staðfestir það og segir ljóst að bótagreiðslur nemi milljörðum Kanadadala.

Alríkisdómstóll úrskurðaði í síðasta mánuði að hverju þeirra 50 þúsund barna sem brotið var gegn skyldi greitt sem nemur 6,5 milljónum íslenskra króna. Hajdu segir að þær bætur sem samið verði um ná til fleiri barna en vildi ekki tjá sig frekar um smáatriði í þeim efnum. 

Einnig segir hún að í viðræðunum verði sjónum beint að því hvernig bæta megi velferðarkerfi landsins þegar kemur að málefnum barna.

Stutt er síðan á annað þúsund ómerktar grafir frumbyggjabarna fundust við heimavistarskóla í Kanada. Börnin voru þvinguð til vistar í skólunum og bjuggu þar við illan kost, ofbeldi og mismunun.