Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hefur ekki hugmynd um hvers vegna skot var í byssunni

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay - CC0
Hannah Gutierrez-Reed, vopnasérfræðingur við gerð kvikmyndarinnar Rust, segist ekki hafa minnstu hugmynd um ástæður þess að raunveruleg kúla var í skotvopninu sem varð tökustjóranum Halynu Hutchins að bana 21. október síðastliðinn.

Þetta er í fyrsta sinn sem Gutierrez-Reed tjáir sig um atburði þessa örlagaríka fimmtudags fyrir rúmri viku. Leikarinn Alec Baldwin var að æfa sig að beina byssu að linsu tökuvélar þegar skot hljóp af og hæfði tökustjóra og leikstjóra myndarinnar.

Dave Halls aðstoðarleikstjóri afhenti leikaranum vopnið með þeim orðum að það væri óhlaðið og öruggt. Vopnasérfræðingnum ber að tryggja öryggi allra þeirra vopna sem notuð eru við kvikmyndagerðina og að þau séu geymd á öruggum stað meðan þau eru ekki í notkun.

Hávær orðrómur hefur verið uppi um að öryggi hafi verið ábótavant við gerð vestrans Rust, meðal annars hafi starfsmenn æft sig í skotfimi nokkru áður en óhappið sem leiddi til bana Hutchins varð.

Gutierrez-Reed kveðst ekki vita til að slíkt hafi átt sér stað, hún og leikmunavörður myndarinnar hefðu aldrei leyft slíka hegðun. Öll vopn hafi verið í læstum skápum meðan þau voru ekki í notkun og útilokað að starfsfólk hefði getað leikið sér með þau.

Lögmenn Gutierrez-Reed segja öryggismálum hafa verið ábótavant á tökustað í sparnaðarskyni. Til að mynda sé útilokað að áfellast hana fyrir að skot hlupu úr leikmunabyssu þann 16. október, það megi frekar kenna ströngu fjárhagslegu aðhaldi framleiðendanna.