Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

G20: Ræða loftslagsmál og endurreisn efnahagslífsins

epa09552275 A handout photo made available by Qurinal Press Office shows Italian President Sergio Mattarella (R-C) meets US President Joe Biden (L-C) at the Quirinale presidential palace in Rome, Italy, 29 October 2021, ahead of an upcoming G20 summit of world leaders to discuss climate change, Covid-19 and the post-pandemic global recovery.  EPA-EFE/Francesco Ammendola - Qurinal Press Office HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - Qurinal Press Office
Búist er við að endurreisn efnahags heimsins eftir kórónuveirufaraldurinn og baráttan við loftslagsvána verði helstu umræðuefni leiðtoga tuttugu helstu iðnríkja heimsins nú um helgina. G20 ráðstefnan hefst í Róm höfuðborg Ítalíu í dag.

Þetta er í fyrsta sinn frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á að fulltrúar ríkjanna hittast augliti til auglitis. Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, sú 26. í röðinni hefst svo í Glasgow í Skotlandi á mánudag.

Því liggur mjög á leiðtogunum að ræða leiðir til að takast á við loftslagsmálin. Ekki síst í ljósi brýningar Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að þeim beri að sýna meiri djörfung og framkvæmdagleði. Leiðtogarnir hefðu tækifæri til þess á ráðstefnunni nú um helgina.

Viðbúið er að ólík sýn á leiðir og þann tímaramma sem þarf til að takast á við vána liti samræður um helgina í Róm. Líklegra þykir að samhljómur verði um ákvörðun ríkjanna um samræmda skattlagningu alþjóðlegra stórfyrirtækja.

Jafnframt er viðbúið að rædd verði sú yfirlýsing heilbrigðisráðherra ríkjanna að tryggja þróunarlöndum bóluefni og nauðsynlegar lækningavörur. 

Mikill viðbúnaður er í Rómaborg, en búist er við mótmælum meðan á fundinum stendur. Á sjötta þúsund lögreglu- og hermanna annast löggæslu í borginni samkvæmt upplýsingum ítalska innanríkisráðuneytisins.