Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Takmarkanir á landamærum líkt því að veiða ekki kvótann

Leifsstöð
 Mynd: Anna Lilja Þórisdóttir - Ljósmynd
Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir það efnahagslega skynsamlegt að takmarkanir fyrir bólusetta ferðamenn séu ekki harðari hér á landi en í samkeppnislöndunum.

Í samtali við Fréttablaðið í dag líkir Jóhannes Þór strangari takmörkunum á landamærunum efnahagslega við að veiða ekki loðnukvótann.

„Þannig að ákvörðun um að hafa þessar aukatakmarkanir áfram í vetur er eins og að ákveða að við ætlum ekki að veiða loðnukvótann á þessu ári og jafnvel ekki á næsta ári heldur.“

Flugfélög og fyrirtæki í ferðaþjónustu hafi fundið fyrir minni eftirspurn vegna takmarkananna, dæmi um það sé ákvörðun breska flugfélagsins Jet2 að fljúga ekki hingað næsta sumar.  

Jóhannes segir Ísland hafa einna hörðustu landamæratakmarkanir á bólusetta ferðamenn sé litið til nágrannaríkjanna. Ísland eitt EES-landa krefjist aukaprófs á bólusetta ferðamenn við komuna, annars staðar dugi bólusetningin.

Hann segir að með þessum takmörkunum tapist tugir milljarða í útflutningstekjum. Ferðamönnum fækki um 100 þúsund sé miðað við 10% fall frá áætlun Íslandsbanka um að milljón ferðamenn heimsæki landið á næsta ári. 

„Miðað við að ferðamenn hafa verið að eyða fyrir utan fargjöld um 263.000 krónum. Þannig að jafnvel svo hóflegar forsendur sýna að áhrifin eru 26 milljarða tap á útflutningstekjum.“

Jóhannes Þór segir að ef full áhrif séu reiknuð út frá mati flugfélaganna og þjóðhagsspá Landsbankans þýði það 10 til 30 prósenta fall á eftirspurn vegna landamæratakmarkana á erlenda bólusetta ferðamenn. 

Við það geti tapaðar útflutningstekjur árið 2022 numið um 39 til 118 milljörðum króna að mati framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar.