Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Öll lönd fjarlægð af rauðum lista breskra stjórnvalda

epa08152090 A passenger arrives wearing a mask at Terminal 4, Heathrow Airport,  London, Britain, 22 January 2020. Britain will monitor flights arriving from China as a precautionary measure after the spread of a new coronavirus. The respiratory virus was first detected in Wuhan, China, and can be passed between humans. So far it has confirmed cases at the USA, Thailand, South Korea, Japan, and Taiwan  EPA-EFE/WILL OLIVER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Næstkomandi mánudag verða þau sjö lönd sem enn eru á rauðum ferðalagalista bresku ríkisstjórnarinnar fjarlægð þaðan. Samgönguráðherra Bretlands segir kerfið í sífelldu endurmati en listinn verður reglulega uppfærður.

Með breytingunni þurfa fullbólusettir ferðalangar frá Ekvador, Dómíníska lýðveldinu, Kólumbíu, Perú, Panama, Haití og Venesúela ekki lengur að dvelja á sóttkvíarhóteli við komuna til Bretlands.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir Grant Shapps samgönguráðherra að ákvörðunin styrki ferðamannaiðnaðinn og allt það fólk sem þar starfar. Hann segir ástæðu hennar fyrst og fremst vera minnkandi áhyggjur heilbrigðisyfirvalda af þeim afbrigðum veirunnar sem hingað til hafa vakið mestan ugg.

Bólusettum ferðamönnum frá meira en135 löndum og landssvæðum er nú óhætt að ferðast til Bretlandseyja samkvæmt þar til gerðum lista stjórnvalda.  

Rauði listinn verður endurmetinn á þriggja vikna fresti og þeim löndum þar sem smitum fjölgar mikið hiklaust bætt á hann og eins ef ný afbrigði veirunnar láta á sér kræla.

Shapps samgönguráðherra segir skráningakerfið sjálft verða endurmetið á nýju ári en að við hæfi sé að hafa allmörg hótelherbergi til reiðu þurfi að grípa til sóttvarnaráðstafana að nýju.