Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ávíta Rússa vegna skorts á fjölmiðlafrelsi

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Bandaríkin og sautján bandalagsríki þeirra brýna fyrir Rússum að vernda tjáningarfrelsi fjölmiðla í landinu. Þau gagnrýna mjög það sem þau nefna herferð rússneskra stjórnvalda gegn sjálfstæðum fjölmiðlum af erlendum uppruna í landinu.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu þar sem mjög er fundið af þeim kröfum að erlendir fjölmiðlar í Rússlandi þurfi sérstaklega að merkja sig sem fulltrúa erlendra afla eða eiga ella sektir yfir höfði sér.

Þar segir einnig að helst líti út fyrir að Rússar vilji helst stöðva starfsemi stöðva á borð við Radio Free Europe, sem studd er af bandarískum stjórnvöldum. Öðrum sjálfstæðum fjölmiðlum hefur verið gert að hætta starfsemi sinni.

Það segja ríkin að lýsi skýlaust tilraunum rússneskra yfirvalda að draga úr aðgengi Rússa að sjálfstæðum fréttamiðlum.  Þau gagnrýna einnig harkalega framgöngu í garð erlendra fréttamanna sem meðal annars hafa fjallað um mótmæli gegn fangelsun stjórnarandstæðingsins Alexei Navalny. 

„Við brýnum fyrir Rússlandi að hlýða þeim alþjóðlegu mannréttindareglum sem þeir hafa undirgengist, virða tjáningarfrelsi fjölmiðla og tryggja öryggi blaða- og fréttamanna,“ segir í yfirlýsingunni. 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV