Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

100 kílómetra hleðsla á fimm mínútum

29.10.2021 - 18:34
Öflugasta hraðhleðslustöð landsins var tekin í notkun í dag, en með henni tekur innan við fimm mínútur að hlaða bíl fyrir hundrað kílómetra akstur. Iðnaðar- og nýsköpunarráðherra segir orkuskipti í samgöngum ganga vel í það heila, enda Ísland komið næstlengst allra landa í þeim.

Hleðslustöðin er í eigu Bílabúðar Benna og skilar hún allt að 350 kílóvöttum, en samkvæmt Benedikt Eyjólfssyni eiganda fyrirtækisins skila stöðvar sem Tesla er að setja upp 250 kílóvöttum og öflugustu stöðvar Orku náttúrunnar 150 kílóvöttum.

„Hún getur verið undir fimm mínútum í hundrað kílómetra og ef að bíllinn tekur svona mikla hleðslu geturðu farið í 250 kílómetra á tíu mínútum,“ segir Benedikt Eyjólfsson.

Iðnaðar- og nýsköpunarráðherra tók hleðslustöðina í notkun, en stöðin verður opin öllum bílum sem hafa svokölluð euro-tengi fyrir hraðhleðslustöðvar. Ráðherra segir mikilvægt bæði að fjölga hleðslustöðvum en einnig að fá svona öflugar stöðvar. Allt sé þetta liður í orkuskiptunum.

„Orkuskipti í samgöngum ganga vel, við erum númer tvö í heiminum á eftir Norðmönnum og við höfum verið að hvetja til og styðja við uppbyggingu innviða sem er auðvitað það sem hefur töluvert vantað, að það sé ekki þessi drægnikvíði og fólk geti farið á milli staða og farið út á land. Þannig að heilt yfir gengur þetta ágætlega. Við vitum líka að það verða oft flöskuhálsar og við verðum að passa að á stöðum þar sem eru margir, að það sé hægt að hlaða bæði hratt og vel. Við erum að reyna að ná fram þessari blöndu með því að ýta við með styrkjum en auðvitað er það bara almenni markaðurinn sem er að sinna þessu, sem betur fer,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV