Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Styttri sóttkví og einangrun frá og með morgundeginum

28.10.2021 - 11:22
Mynd með færslu
 Mynd: Olga Möller
Á morgun taka gildi nýjar reglur um lengd sóttkvíar og einangrunar hjá þeim sem eru útsettir eða greinast með COVID-19.

Eftir endurskoðun sóttvarnalæknis er niðurstaðan að einangrun getur varað í sjö daga hjá einkennalausum, fullbólusettum einstaklingum og einkennalausum börnum sem fædd eru 2009 eða síðar.

Eins má aflétta einangrun að tíu dögum liðnum hjá þeim sem veikjast og sýna einkenni ef einkenni eru í rénun og viðkomandi hefur verið hitalaus í tvo sólarhringa.

Almenna krafan um lengd sóttkvíar fer úr sjö dögum í fimm, að því gefnu að neikvæð niðurstaða fáist úr PCR-prófi. Ef fólk er í sóttkví og dvelst með fólki sem er í einangrun er ekki hægt að aflétta sóttkvínni fyrr en degi eftir afléttingu einangrunar þess sem henni sætti. Þeir sem ekki fara í PCR-próf þurfa að dvelja í sóttkví í 14 daga. 

Þetta kemur fram í nýrri reglugerð sem heilbrigðisráðherra undirritaði í morgun. Í minnisblaði sóttvarnalæknis er tilgreint að börn og bólusettir fullorðnir einstaklingar sem greinast með COVID-19 en eru einkennalaus skuli sæta einangrun í sjö daga og forðast samneyti við viðkvæma einstaklinga í 2 vikur eftir að einangrun lýkur. 

 

Einangrun barna og bólusettra fullorðinna sem greinast og sýna einkenni skal vara í 14 daga, en hana má stytta í 10 daga ef viðkomandi er hitalaus í 2 sólarhringa og einkenni fara minnkandi. Þau skulu einnig forðast samneyti við viðkvæma í 2 vikur eftir að einangrun lýkur. 

Óbólusettir fullorðnir einstaklingar skulu sæta einangrun í 14 daga, en hana má stytta í 10 daga ef viðkomandi er hitalaus í 2 sólarhringa og önnur einkenni fara minnkandi. Þeir skulu einnig forðast samneyti við viðkvæma einstaklinga í tvær vikur eftir að einangrun lýkur. 

Til einföldunar:

  • Smitaðir af COVID-19 en einkennalausir: Má aflétta einangrun eftir sjö daga.
  • Smitaðir af COVID-19 með einkenni: Má aflétta einangrun eftir tíu daga ef einkenni eru minnkandi og hiti mælist ekki í tvo sólarhringa.
  • Sóttkví: Má aflétta eftir fimm daga með neikvæðu PCR-prófi.