Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Munu ekki fara fram á bólusetningar starfsfólks

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Tuttugu starfsmenn Landspítala hafa hafnað kórónuveirubólusetningu. Yfirlæknir á spítalanum segir ekki koma til greina að fara fram á að starfsfólk láti bólusetja sig. 

Í haust lét farsóttarnefnd Landspítala kanna stöðu bólusetninga meðal starfsmanna spítalans. 480 reyndust ekki vera bólusettir og í flestum tilfellum var það vegna  þess að fólk hafði fengið COVID, vegna meðgöngu eða að læknir hafði ráðið frá bólusetningu af heilsufarslegum ástæðum. 

Um 20 af þessum 480 hafa hafnað bólusetningu. Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala og formaður farsóttarnefndar spítalans segist ekki vita ástæður þess.

„Við höfum ekki gengið eftir því vegna þess að þetta er í rauninni valkvætt og ég býst við því að það séu alltaf einhverjir sem hafa sínar eigin skoðanir á því.
Það eru alger undantekningartilvik að einstaklingar séu óbólusettir.“

Hefur komið til tals innan farsóttarnefndar eða stjórnar spítalans að skylda starfsfólk spítalans í kórónuveirubólusetningu? „Nei, það hefur ekki komið til tals. Einfaldlega vegna þess að sókn starfsmanna í bólusetningu var mjög góð. Þarna höfum við höfðað til samvisku heilbrigðisstétta að það sé talið rétt að bólusetja sig.“

Veistu hvort einhverjir af þeim sem ekki hafa viljað þiggja bólusetningu starfi með sjúklingum? „Mér er ekki kunnugt um það.“

Víða erlendis hefur verið sett löggjöf þar sem heilbrigðisstarfsmönnum er meinað að starfa við sitt fag nema þeir séu bólusettir. Finnst þér að það ætti að skoða slíka löggjöf? „Það finnst mér ekki, ekki miðað við reynslu okkar.“