Mikil viðurkenning fyrir ferðaþjónustu á Vestfjörðum

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Vestfirðir eru efst á lista yfir svæði til að heimsækja árið 2022 í árlegu vali ferðabókaútgefandans Lonely Planet yfir lönd, svæði og borgir til að heimsækja.

Á hverju ári velja ferðarithöfunar, bloggarar og starfsfólk ferðamiðilsins Lonely planet áfangastað sem þykir skara fram úr. Díana Jóhannsdóttir verkefnastjóri Vestfjarðarstofu segir þetta mikla viðurkenningu og heiður.

„Þetta hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir ferðaþjónustu á Vestfjörðum og fyrir ferðaþjónustu á Íslandi, því það birtist enginn ferðamaður á Vestfjörðum, Það þurfa allir að fara fyrst til Ísland og fara hér um. Nú eru þessar fréttatilkynningar að rúlla um heiminn og við erum strax farin að fá símtöl og fyrirspurnir frá miðlum sem hafa áhuga á að fjalla nánar um Vestfirði.“ segir Díana Jóhannsdóttir, verkefnastjóri hjá Vestfjarðastofu.

Díana segir að Vestfirðir séu nokkuð vel í stakk búnir til að taka við fleiri ferðamönnum.

„Vissulega þarf að vera meiri uppbygging í innviðum og okkur vantar fleiri gistirými inn á svæðið. Þannig að við erum líka að horfa til þess að þetta gæti verið ákveðin kveikja fyrir að fá meiri fjárfestingu inn í ferðaþjónustu á svæðinu.“ segir hún.

Þá sé viðurkenning sem þessi til þess fallin að skapa störf á Vestfjörðum, styrkja byggðina og dreifa ferðamönnum landfræðilega, og yfir árið.

„Já ég held að það geri það. Allt svona hjálpar til. Við höfum þegar náð árangri í dreifingu yfir árið. Það er ekki svo langt síðan ferðaþjónustutímabilið á Vestfjörðum var rúmir tveir mánuðir. Nú er það þannig að það er töluvert að gera inn í veturinn og við eigum ennþá sóknarfæri fyrr á vorin og inn í veturinn því veturinn er líka alveg einstök upplifun og er ekki eins óvenjulegur og margir vilja halda.“

Þannig að þið eruð bara nokkuð ánægð með þetta?

Við erum mjög ánægð. “ segir hún að lokum.