Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kjarasamningar skiluðu sér í budduna og meiri frítíma

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Norðurlandi eystr
Síðustu kjarasamningar skiluðu verulegri kaupmáttaraukningu. Hún rataði í budduna og í birtist einnig í styttri vinnutíma.

Haustskýrsla kjaratölfræðinefndar var kynnt í morgun en nefndina skipa fulltrúar ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðar. Í skýrslunni er launaþróun á yfirstandandi kjarasamningatímabili, frá mars 2019 til dagsins í dag, skoðuð en á bak við tölurnar eru 326 kjarasamningar.

Heilt á litið skiluðu kjarasamningarnir umtalsverðri kaupmáttaraukningu og hækkuðu laun umtalsvert meira hér á landi en í nágrannalöndunum.

Edda Rós Karlsdóttir er formaður nefndarinnar. „Við erum að sjá hækkun tímakaups upp á 14 til 32 prósent, mjög breytilegt eftir hópum. En þar af eru vinnutímabreytingar mjög miklar, frá því að vera ekkert til dæmis hjá Kennarasambandinu upp í að vera tæp 7 prósent hjá sumum hópum innan ASÍ hjá ríkinu. Þannig að launahækkanir, það er hækkanir í budduna eru þetta á bilinu 12 til 26 prósent og síðan hefur verðbólga verið á bilinu 8 prósent þannig að kaupmátturinn er þá minni sem því nemur.“

Edda Rós segir vinnutímastyttingu hafa mjög mikil áhrif.  „Þetta eru þá annars vegar kjarabætur sem koma í gegnum budduna í gegnum launahækkanir og svo eru þetta kjarabætur sem koma með styttri vinnutíma.“

Vinnutímastyttingin skilar sér betur hjá hinu opinbera en á almenna markaðinum og segir Edda Rós að svo virðist sem betur hafi tekist að innleiða styttingu vinnuvikunnar hjá ríki og sveitarfélögum. Styttingin felur þó ekki endilega í sér aukinn kostnað fyrir launagreiðendur. „Við teljum að þessi vinnutímastytting komi ekki endilega fram í hærri kostnað fyrir launagreiðanda vegna þess að fólk er að vinna hraðar og leggja meira á sig til að klára vinnuna á styttri tíma.“

Magnús Geir Eyjólfsson