Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hattur Napóleóns seldist á tugi milljóna

28.10.2021 - 01:57
Erlent · Bretland · Frakkland · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd: epa
Gamall Napóleónshattur seldist fyrir 200.000 sterlingspund, jafnvirði um 35 milljóna króna, á uppboði hjá enska uppboðshúsinu Bonhams í Lundúnum í gær. Téður Napóleónshattur var ekkert sætabrauð heldur höfuðfat sem franskir kalla bicorne-hatt og heimsbyggðin þekkir mætavel af málverkum af byltingarmanninum, hershöfðingjanum og keisaranum Napóleóni Bonaparte.

Hatturinn sem seldur var í gær er einmitt sagður hafa verið í eigu Napóleóns og prýtt höfuð hans á sínum tíma. Þetta ráða menn af greiningu erfðaefnis sem náðist úr hári, sem fannst í hattinum innanverðum.

Hatturinn þótti merkastur margra gripa sem boðnir voru upp hjá Bonhams í gær, sem allir tengdust Napóleóni og frönsku byltingunni með einhverjum hætti, þar á meðal skyrta keisarans og tólið sem hann notaði til að skera kjarnann úr eplum sínum.