Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Dræm þátttaka í örvunarbólusetningu

28.10.2021 - 17:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frekar dræm þátttaka hefur verið í örvunarbólusetningu með bóluefni Pfizer. Örvunarskammtar eru í boði fyrir fólk 70 ára og eldra, ef þrír mánuðir eru liðnir frá öðrum skammti, og fyrir fólk 60 ára og eldra ef sex mánuðir eru liðnir frá öðrum skammti. Þá getur fólk sem fékk bóluefni Janssen fengið örvunarskammt með Pfizer, ef meira en 28 dagar eru liðnir.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hvetur til aukinnar þátttöku hjá þeim sem mega fá örvunarskammt.

„Það er frekar dræm þátttaka í að koma í örunvarskammtinn til okkar, oft ekki nema 30-50 prósent mæting. Við viljum endilega hvetja fólk, þegar það fær boð, að koma til okkar í örvunarskammtinn,“ segir Ragnheiður Ósk.

Hún segir að flestir fái boð um örvunarbólusetningu sem fallar þar undir, en minnir á að ef viðkomandi er 70 ára eða eldri, þá dugar að það séu liðnir þrír mánuðir frá seinni skammti, og ef viðkomandi er 60 ára eða eldri þá þurfa að vera sex mánuðir liðnir frá seinni skammti.