Blíp blabb blúpp, kallarðu þetta músík?

Mynd: Maggi Legó / President Bongo

Blíp blabb blúpp, kallarðu þetta músík?

28.10.2021 - 16:50

Höfundar

Tilraunakennd íslensk raftónlist tekur sviðið að þessu sinni í Undiröldunni og við heyrum af nýjustu ævintýrum President Bongo sem heldur áfram að raða út breiðskífum í seríu sinni til heiðurs belgíska blaða- og ævintýramanninum Tinna. Það er síðan útgáfuserían Móatún 7 sem tekur við og lög frá Perlu, Futuregrapher, Vonda kallinum og Bloodline, sem komu út núna í október.

Uwaga – Fatal Hearts

Les Adventures de President Bongo er tíu ára gjörningur Stefáns Stefánssonar, úr Gusgus, Gluteus Maximus og Tussull, sem á að lokum að vera safn 24 hljómplatna og ljósmynda sem mynda eina heild til heiðurs ævintýramanninum Tinna. Nýjasta platan í seríunni heitir Eros og er flutt af Uwaga-hópnum sem er fyrrnefndur Stefán skipar ásamt Þorsteini Einarssyni úr Hjálmum auk þess sem Gabríela Friðriksdóttir, Daníel Friðrik Böðvarsson, Þorleifur Gaukur Davíðsson og Aaron Roche koma við sögu.


Perla – Gára

Perla Hafþórsdóttir er fjórða raftónlistarkonan til að gefa út tónlist hjá Móatún 7 útgáfunni. Hinar þrjár starfa undir listamannsnöfnunum Röskva, Pyya og Gugusar. Lagið Gára er það fyrsta sem kemur út frá henni og er að finna á sjötommunni MOA97 sem kom út nýlega.


Futuregrapher – Draugahús

Í flestum tilvikum eru útgáfur Móatún 7 samvinnuverkefni og á MOA97 er það Futuregrapher eða Árni Grétar sem er á B-hliðinni. Hann er aðalsprautan á bak við Móatún 7 og hefur verið lengi að í raftónlistarsenunni í Reykjavík sem plötusnúður, tónlistarmaður, útgefandi og pródúser.


Vondi kallinn – Ekki fimma

Stundum er spurt hver sé vondi kallinn í hinu eða þessu, til dæmis Ófærð eða tölvuleikjum. Oftar en ekki eru þetta skúrkar þó erfitt sé að fullyrða það um Vonda kallinn á MOA98 sem er nýjasta útgáfan í þessari útgáfu röð frá Móatúni 7.


Bloodline – Bells

Feðgarnir Baldur Logi Ingason og Ingi Þór Eyjólfsson eru dúettinn Bloodline og eiga lagið Bells sem var að finna á MOA95 sem kom út nú í byrjun október. Á hinni hliðinni er síðan að finna lag Funk Harmony Park sem hefur starfað frá aldamótum og Ingi Þór Eyjólfsson er í þeirri sveit, sem stundum hefur heyrst hér í Undiröldunni.