Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

96 smit innanlands

28.10.2021 - 09:47
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Níutíu og sex smit greindust innanlands í gær. Ekki liggur fyrir hve mörg hinna smituðu voru í sóttkví þegar þau greindust. Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala, segir að fjölgun smita sé nánast í veldisvexti. „Það er blindur maður sem sér það ekki að þetta er að vaxa. Þetta er nánast að komast í veldisvöxt,“ segir Már. Þeir sem leggjast inn á Landspítalann vegna covid eru yngri en áður. Þrír liggja á gjörgæslu vegna covid.

Þrír eru á gjörgæsludeild með alvarlega öndunarbilun vegna covid, segir Már. Þá eru fimm inniliggjandi eftir að hafa smitast af covid á spítalanum. „Þeir eru minna veikir af völdum covid en þeir eru að jafna sig eftir opna hjartaaðgerð,“ segir Már. Til viðbótar séu fimm manns sem eru talsvert veikir og liggja á legudeild. „Það eru núna tæplega 900 manns í göngudeild covid.  Við erum alltaf að skoða einhverja sjúklinga á hverjum degi og vega og meta. Það hafa verið daglegar innlagnir núna,“ segir Már. Einn lagðist inn í gær. Engin þeirra sem liggi á gjörgæslu hafi komið af hjartadeildinni.

„Það er óvenjulega mikið af ungu fólki, fólk sem er fætt um 1970 eða um eða eftir 1980 sem er inniliggjandi hjá okkur núna,“ segir Már.  Þá sé fólk sem liggur á gjörgæsludeild fætt frá 1975 til 1984.  

Í gær greindust 96 smit innanlands. „Það er blindur maður sem sér það ekki að þetta er að vaxa. Þetta er nánast að komast í veldisvöxt,“ segir Már.