Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

480 en ekki 600 starfsmenn Landspítala óbólusettir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Spítalinn er í alveg þokkalegu standi en það dynur margt á,“ segir Már Kristjánsson, formaður farsóttarnefndar Landspítalans. Þá segir að ekki sé rétt að 600 starfsmenn spítalans séu óbólusettir. Fjöldinn sé um 480 manns. Þar af séu í raun innan við 20 sem vilji ekki þiggja bólusetningu.

Már Kristjánsson, formaður farsóttanefndar Landspítalans og yfirlæknir smitsjúkdómadeildar spítalans, segir að tölur sem birtar hafa verið um fjölda óbólusettra starfsmanna séu ekki réttar. 

„Spítalinn er í alveg þokkalegu standi en það dynur margt á. Aðeins í sambandi við þessar tölur, 600 manns, þá langar mig að leiðrétta það,“ sagði Már Kristjánsson. Rætt var við hann í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Már skrifaði pistil á vef Landspítalans í gær þar sem segir: „Ennþá eru yfir 600 starfsmenn óbólusettir, af ýmsum ástæðum.“

Már segir að farið hafi verið betur yfir tölurnar. „Það kemur á daginn að þetta eru ekki alveg fyllilega réttar tölur. Þetta voru 480 manns ef ég man rétt. Það eru ástæður fyrir því að fólk hefur ekki verið bólusett. Margir hafa verið barnshafandi og hafa ekki þegið bólusetningu þess vegna og í rauninni samkvæmt ráðleggingu. Síðan eru sumir með þess háttar veikindi að það er ekki heppilegt að bólusetja. Þannig að það eru í rauninni ekki nema innan við 20 manns sem hafa ekki viljað fá bólusetningu,“ sagði Már Kristjánsson í Morgunútvarpinu á Rás 2.