Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Var 20 daga í sérútbúnum klefa með fíkniefni innvortis

27.10.2021 - 18:20
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Umboðsmaður Alþingis gerir margvíslegar athugasemdir við húsnæði lögreglunnar á Suðurnesjum í Keflavík og verklag hennar þegar fólk er grunað um að vera með fíkniefni innvortis. Dæmi er um að fólk með eiturlyf innvortis hafi verið vistað í sérútbúnum klefa í þrjár vikur til að bíða eftir að fíkniefni skiluðu sér. Íbúar fjölbýlishúss við lögreglustöðina í Keflavík geta fylgst með lögreglunni koma inn á stöðina með handtekna sakborninga.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis sem er hluti af OPCAT-eftirliti í fangageymslum hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

Í skýrslunni er farið yfir það verklag sem lögreglan fylgir þegar burðardýr er gripið með fíkniefni falin innvortis á Keflavíkurflugvelli. 

Setið er öllum stundum yfir viðkomandi og fylgst með honum matast. Þegar hann fer á salerni er það tilkynnt til varðstofu og minnst tveir lögreglumenn koma til aðstoðar og skoða það sem viðkomandi losar í þar til gerðum vaski. 

Sakborningurinn er vistaður í sérútbúnum klefa. Aðeins rimlahurð er lokað þannig að lögreglumaður geti fylgst með öllu. Inni í klefanum er salerni upp á steyptum palli með tröppum og staðið er yfir fólki meðan það notar salernið. 

Starfsfólk lögreglunnar greindi frá því í viðtölum að það teldi sérstaklega íþyngjandi fyrir fólk að vera vistað í þessum klefa.

Yfirleitt eru burðardýr einn til þrjá daga að losa innvortis efni en dæmi er um að það hafi tekið 20 dag. Það er þá allan tímann í klefanum og er undir stöðugu eftirliti við allar athafnir. 

Í skýrslu umboðsmanns kemur fram að ef útlit er fyrir að losun efnanna taki meira en sólarhring er viðkomandi leiddur fyrir dómara og úrskurðaður í gæsluvarðhald.  Sá flutningur er síður en svo einfaldur.

Sakborningurinn er fluttur í stórum lögreglubíl með ferðasalerni aftur í. Bílinn er stöðvaður ef hinn handtekni þarf að nota salernið og ef hann er fjarri bílnum er farið með hann sérstaklega út í bíl ef hann þarf á salernið.  Starfsfólk greindi umboðsmanni frá því að fólki þætti þetta almennt niðurlægjandi, sérstaklega þegar það væri fluttur í dómþing.

Umboðsmaður mælist til þess að þessi flutningur verði skoðaður frekar, meðal annars með því að nota fjarfundabúnað í stað þess að standa í þessum flutningum.

Umboðsmaður fjallar einnig um húsnæði lögreglunnar á Suðurnesjum í Keflavík. Og segir að lögreglustöðin við Hrinbraut geti ekki talist hentug með hliðsjón af eðli starfseminnar.

Á það er bent að fjölbýlishús séu í kringum og þar sé hægt að fylgjast með þegar komið er með handtekna menn.  Þetta eigi meðal annars við um sérstakt móttökurými við bakhlið hússins. „[Þetta] hlýtur að teljast óheppilegt með tilliti til persónuverndar hins handtekna manns,“ skrifar umboðsmaður.

Embættið beinir því til dómsmálaráðuneytisins að það meti hvort húsnæðið fullnægi þeim kröfum sem gerðar séu til lögreglunnar og umfangs hennar.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV