Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tók upp hanskann fyrir dreng í harðvítugri forsjárdeilu

27.10.2021 - 16:45
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már - RÚV
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra þar sem hafnað var kröfu móður um að dómkvaddur yfirmatsmaður yrði fenginn til að meta forsjárhæfni hennar og föðurins í harðvítugri forsjárdeilu um son þeirra. Dómarinn taldi það ekki þjóna hagsmunum drengsins að leggja á hann nýtt og umfangsmikið matsferli. Sálfræðingur sagði í matsgerð sinni að stríðsástand ríkti í samskiptum foreldranna.

Í úrskurði héraðsdóms er forsjárdeilan rakin. Þar kemur fram að upp úr sambúð foreldranna hafi slitnað fyrir sjö árum og ári seinna var staðfest hjá sýslumanni samkomulag þeirra um forsjá, lögheimili og umgengni.  Drengurinn átti að eiga lögheimili hjá móður sinni en dvelja aðra hverja viku hjá föður sínum.

Fimm árum seinna voru samskiptin orðin stirð og segir dómurinn að ekki hafi bætt úr skák þegar móðir drengsins fluttist með hann í annað sveitarfélag. Í úrskurðinum kemur fram að svo virðist sem hún hafi gert það án samráðs við föðurinn.

Upp úr sauð í ágúst og september á síðasta ári og í desember lauk sáttameðferð með útgáfu vottorðs um árangurslausar sættir.  Í vottorðinu var haft eftir drengnum að hann væri sáttur við að eiga tvö heimili, annað hjá föður sínum en hitt hjá móður sinni. Hann ætti vini á báðum stöðum.

Sálfræðingur var fenginn til að skila matsgerð í tengslum við forsjárdeiluna. Deginum áður en henni var skilað tilkynnti lögmaður móðurinnar sálfræðinginn til landlæknis fyrir afglöp í starfi.  Sálfræðinginn hefði ekki gætt hlutlægni og hlutleysis heldur dregið taum föðurins. Hún krafðist þess að fá dómkvaddan nýjan matsmann en þeirri beiðni var hafnað bæði í héraðsdómi og Landsrétti.

Af sömu ástæðu taldi hún rétt að kvaddur yrði til yfirmatsmaður þar sem matsgerð sálfræðingsins væri „meingölluð“ og gæfi ekki rétt mynd af forsjárhæfni foreldranna.  Niðurstaða hans væri á skjön við niðurstöður barnaverndaryfirvalda.

Faðirinn mótmælti þessu; matsgerðin væri vönduð og ítarleg og sýndi vel stöðu foreldranna og sonar þeirra í dag. Nú þyrfti að ljúka málinu og leysa úr ágreiningi foreldranna þannig að sonur þeirra gæti öðlast sálarró.

Undir þessi sjónarmið tók dómari við Héraðsdóm Norðurlands eystra. Hann vitnaði til matsgerðar sálfræðingsins þar sem lagt er til að foreldrar drengsins geri stórátak í að hverfa frá því „stríðsástandi sem ríkt hefur í samskiptum þeirra og færa þau yfir í friðsamlegt horf.“ Dómarinn bendir á að það taki 3 til 4 mánuði að afla yfirmatsgerðar og hagsmunir drengsins þoli ekki þá bið.  Þá sé heldur ekki rétt að leggja á drenginn umfangsmikið matsferli.  Yfirmatsgerð gangi gegn bestu hagsmunum drengsins og var beiðninni því hafnað.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV