Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Telma Líf komin í leitirnar heil á húfi

27.10.2021 - 13:26
Innlent · Leit · Spánn
Mynd með færslu
 Mynd:
Átján ára íslensk stúlka, Telma Líf Ingadóttir, sem leitað hefur verið á Spáni frá því í gærmorgun er komin í leitirnar. Ingi Karl Sigríðarson, faðir Telmu, segir í samtali við fréttastofu að Telma hafi komið heim laust fyrir klukkan eitt í dag. Hún sé heil á húfi.

Ingi Karl hefur ásamt fjölskyldu sinni leitað að Telmu á Benidorm í dag þar sem hún er búsett. Fjölskyldan býr þar skammt frá, í Callosa de Ensarriá. Telma fór á mánudagskvöldið á bar og fékk sér drykk. Um klukkan eitt um nóttina var hún svo flutt í óminnisástandi á sjúkrahús. Nokkrum tímum síðar var hún síðan útskrifuð. Hún fór af sjúkrahúsinu en skildi eftir skilríki, síma, peninga og miða með símanúmeri föður síns. 

Ingi Karl segir að Telma hafi sjálf komið sér á öruggan stað þar sem hún gat lagst fyrir. Hún hafi svo vaknað í morgun og ekki munað neitt sem gerst hafði frá því hún var á barnum á mánudagskvöldinu. Ingi segir að hún hafi svo sjálf komið sér heim til hans til Callosa. Systir hennar hafi verið heima og tekið á móti henni. Ingi segir að dóttir hans sé heil á húfi.