Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Milljónir evrópskra barna búa við sára fátækt

27.10.2021 - 06:54
epa05022929 A group of migrants wait permission to enter the registration and transit camp after crossing the border between Greece and Macedonia, near the city of Gevgelija, The Former Yugoslav Republic of Macedonia, 13 November 2015. Europe is still dealing with its greatest influx of migrants and asylum seekers since World War II as immigrants fleeing war and poverty in the Middle East, Afghanistan and Africa try to reach Germany and other Western European countries.  EPA/GEORGI LICOVSKI
 Mynd: epa
Börnum sem búa við fátækt og sárafátækt í Evrópu hefur fjölgað mjög í heimsfaraldrinum og brýnt er að snúa þeirri óheillaþróun við. Milljónir evrópskra barna búa við sára fátækt og jafnvel í ríkum löndum á borð við Þýskaland á fjórða hvert barn á hættu að alast upp við fátækt og félagslega einangrun. Þetta kemur fram í fyrstu skýrslu Barnaheilla um fátækt meðal barna í Evrópu, en samtökin hyggjast vinna slíka skýrslu árlega héðan í frá.

Helmingur albanskra barna býr við fátækt

Rannsókn samtakanna tekur til 14 Evrópuríkja, þar á meðal Íslands og níu Evrópusambandsríkja. Í henni er dregin upp dökk mynd af vaxandi barnafátækt í álfunni. Í Albaníu býr helmingur allra barna við fátækt, og það sama á við um eitt af hverjum þremur börnum í Rúmeníu og á Spáni. Á Ítalíu er talið að börnum sem búa við sárafátækt hafi fjölgað um 200.000 árið 2020.

Í þremur þeirra níu Evrópusambandsríkja sem rannsóknin nær til - Danmörku, Svíþjóð og Litháen - minnkaði hins vegar barnafátækt í fyrra. Ekki kemur fram á hvorn veginn þróunin var hér á landi.

18 milljónir barna undir fátæktarmörkum fyrir faraldur

Í fréttatilkynningu Barnaheilla segir að þegar heimsfaraldurinn skall á 2019 hafi um 18 milljónir barna í Evrópusambandinu - um það bil eitt af hverjum fjórum - átt á hættu að alast upp í fátækt og/eða félagslegri einangrun. Rannsókn samtakanna sýni að þeim muni að öllum líkindum fjölga enn á næstu misserum ef ekki verður gripið til markvissra aðgerða til að hamla gegn því. 

Sjá nánar á vef Barnaheilla.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV