Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Jarðskjálfti milli Hveragerðis og Þingvalla

27.10.2021 - 01:46
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Nokkrir íbúar í Hveragerði og nágrenni hrukku upp af værum blundi þegar jörð skalf þar laust fyrir klukkan hálftvö í nótt. Yfirfarnar mælingar Veðurstofunnar sýna að skjálftinn var 3,3 að stærð og að upptök hans voru í Reykjadal, á vinsælli gönguleið um það bil fjóra kílómetra norð-norðvestur af Hveragerði.

Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir enga eftirskjálftavirkni hafa mælst enn og ekkert bendi til annars en að þetta hafi verið stakur skjálfti af því tagi sem algengir eru á þessum slóðum.

Hún segir nokkrar tilkynningar um skjálftann hafa borist Veðurstofunni, allar frá Hveragerði. Og það var einmitt hlustandi þar í bæ sem hafði samband við fréttastofu rétt eftir að skjálftinn reið yfir. Hann sagði skjálftann hafa virst óvenjulangan, en þótt vel hafi glamrað í hillum hafi ekkert tjón orðið á innanstokksmunum. 

Fréttin var uppfærð í samræmi við yfirfarnar niðurstöður mælinga.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV