Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hamduk kominn heim til sín en aðrir enn í haldi

27.10.2021 - 04:57
epaselect epa09547400 Sudanese protesters chant near by burning tires during a demonstration in the capital Khartoum, Sudan, 26 October 2021. Protests continued in Sudan on 26 October a day after Sudan's military launched a coup attempt and arrested the Prime Minister Abdalla Hamdok and other senior ministers and civilian members of the Transitional Sovereignty Council during early morning raids. According to the reports seven people were killed and 140 were injured in the country.  EPA-EFE/MOHAMMED ABU OBAID
Súdanir hafa fengið smjörþefinn af lýðræði og margir þeirra kæra sig ekki um að snúa aftur til einræðis, eins og glögglega kom í ljós þegar herinn rændi völdum á mánudag Mynd: EPA-EFE - EPA
Abdalla Hamdok, forsætisráðherra Súdans, hefur fengið að halda til síns heima. Hann var handtekinn ásamt fjölda annarra ráðherra og háttsettra embættismanna þegar herinn hrifsaði völdin í landinu á mánudag. Aðrir sem handteknir voru eru enn í haldi eftir því sem næst verður komist. Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna tókst ekki að koma sér saman um ályktun vegna valdaránsins.

Samkvæmt frétt AFP fékk Hamduk að snúa aftur til heimilis síns í höfuðborginni Kartúm í gær ásamt konu sinni. Ekki er ljóst hvort hann er frjáls ferða sinna eða í stofufangelsi. Aðrir ráðherrar og embættismenn eru enn í haldi.

Var í haldi á heimili yfirhershöfðingjans

Fyrr í gær sagði yfirhershöfðinginn Abdel Fattah al-Burhan, einn helsti forsprakki valdaránsins, að forsætisráðherrann væri í haldi heima hjá honum. Þetta sagði hershöfðinginn gert til að tryggja öryggi forsætisráðherrans, sem myndi þó endurheimta frelsi sitt von bráðar. al-Burhan fullyrti að herinn hefði ekki átt annars úrkosti en að taka öll völd þar sem þungavigtarstjórnmálamenn hefðu verið að hvetja til uppreisnar gegn hernum og þar með í raun til borgararstyrjaldar.

Her og borgarar hafa deilt völdum frá 2019

Herinn og leiðtogar mótmælenda hafa farið sameiginlega með völdin frá því að Omar al-Bashir var steypt af stóli eftir 30 ára valdatíð árið 2019. Það gerðist með atfylgi hersins, sem tók á mótmælendum með mikilli hörku framan af en snerist síðan gegn forsetanum. Yfirlýst markmið samvinnunnar var að koma á fullu lýðræði í landinu „innan eðlilegs tímaramma.“ Samkvæmt nýjustu yfirlýsingum er stefnt á kosningar 2023.

Valdaráninu mótmælt en engin ályktun í Öryggisráðinu

Valdaráninu hefur verið harðlega mótmælt jafnt innanlands sem utan. Minnst fjögur létu lífið þegar herinn lét til skarar skríða gegn mótmælendum í Kartúm á mánudag.

Sameinuðu þjóðirnar og fjöldi þjóðríkja hafa fordæmt valdaránið og ýmist þegar skrúfað fyrir hvers kyns aðstoð við Súdan eða hótað að gera það verði fangelsaðir stjórnmála- og embættismenn ekki látnir lausir þegar í stað og borgaralegri stjórn komið aftur á tafarlaust.

Sendiherrar Súdans hjá fjölmörgum ríkjum, ríkjasamböndum og alþjóðasamtökum, svo sem Sameinuðu þjóðunum, Evrópusambandinu, Bandaríkjunum, Kína og Frakklandi hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir fordæma valdaránið og hafna lögmæti herforingjastjórnarinnar.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kom saman í gær til að ræða ástandið í Súdan en tókst ekki að koma sér saman um ályktun. Samkvæmt frétt þýsku fréttastofunnar DPA strandaði það á því að Rússar og Kínverjar höfnuðu því að hugtakið „valdarán“ yrði notað um aðgerðir hersins.