Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fjölgun smita: Vill frekar tilmæli en boð og bönn

27.10.2021 - 20:40
Mynd: RÚV / RÚV
Sigurði Inga Jóhannssyni, samgönguráðherra og formanni Framsóknarflokksins, hugnast ekki að taka upp grímuskyldu og hertar sóttvarnarreglur vegna fjölgunar COVID-smita síðustu daga. Hann telur að alveg jafn mikið komi út úr því að gefa út tilmæli.

Sigurður Ingi var spurður að því í Kastljósi kvöldsins hvort tímabært væri að herða aðgerðir og taka upp grímuskyldu. „Ég verð að segja eins og er að ég er að horfa á stöðuna á Norðurlöndunum samhliða. Þar fara menn aðrar leiðir. Ég held að við getum alveg hvatt fólk til persónubundinna sóttvarna,“ sagði hann. 

Ekki frekari boð og bönn? „Ég held að við munum alveg geta fengið alveg jafn mikið út úr því að segja góða hluti til fólks og biðja það um að taka þátt í því. Ég hef trú á íslensku þjóðinni.“ 

Telur að Framsókn eigi að fá meira vægi í stjórninni en áður

Einnig var rætt um stjórnarmyndunarviðræður í Kastljósi kvöldsins. Sigurður Ingi sagði að þær gangi ágætlega. Nokkrir úr ráðherrahópnum fari á Loftslagsráðstefnuna í Glasgow og aðrir á þing Norðurlandaráðs og að líklega verði ný ríkisstjórn og stjórnarsáttmáli því ekki kynnt fyrr en um miðjan nóvember. 

Framsóknarflokkurinn bætti við sig fimm þingmönnunum í kosningunum í lok september. Hann segir eðlilegt að flokkurinn fái því meira vægi við ríkisstjórnarborðið. „Annars vegar erum við eini stjórnarflokkurinn sem bætir við sig, hinir tapa en við höldum samt auknum meirihluta vegna sigurs Framsóknar.“ Hann kveðst telja að margir hafi kosið flokkinn til að tryggja áframhaldandi samstarf þeirra þriggja flokka sem voru í stjórn á síðasta kjörtímabili.  

Þá nefndi Sigurður Ingi Þjóðarpúls Gallup en samkvæmt honum vilja 77 prósent landsmanna að flokkurinn verði áfram í ríkisstjórn. Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur hafi komið þar á eftir. „Með því að gefa okkur svona aukið vægi þá eru það þau sjónarmið sem að við lögðum á borðið sem að þjóðin er kannski að ýta enn frekar undir. Það er eðlilegt að þau komi fram í, annars vegar í málefnaskránni og síðan er það auðvitað líka þannig að við þurfum að skipta með okkur ákveðnum verkefnum og það er eðlilegt að það sé þar af leiðandi tekið tillit til þess,“ segir Sigurður Ingi og á þá við fylgisaukningu flokksins. 

Hér má horfa á þáttinn í heild sinni.