
Beint flug á milli Amsterdam og Akureyrar
Hollenskt flugfélag flýgur til Akureyrar
Fyrirtæki í ferðaþjónustu á Norðurlandi hafa talað fyrir nauðsyn þess að flogið sé beint til útlanda frá Akureyrarflugvelli. Áður en faraldurinn skall á var það gert en afar óreglulega. Síðustu misseri hefur Akureyrarflugvöllur ekkert sinnt millilandaflugi. Ragnheiður Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Akureyrar segir að einhverjar breytingar séu í farvatninu og hollenska flugfélagið Transavia hyggst taka aftur upp beint flug milli Amsterdam og Akureyrar.
„Við erum náttúrulega með ferðir sem eru beint frá Akureyri til Tenerife, fólk sem er að fara í frí, þær hafa selst vel og gengið vel. Síðan erum við í samstarfi við Hollendinga sem eru að koma beint hér inn í flug, í febrúar og mars. Og við erum aðeins með einhver sæti sem við erum að selja Norðlendingum og það er alveg áhugi,“ segir Ragnheiður.
Fleiri flugfélög þyrftu að lenda á Akureyri
Ragnheiður segir þó að fleiri erlendar flugvélar þurfi að lenda á Akureyri ef ferðaþjónusta á Norðurlandi eigi að vera samkeppnishæf við Suðurland.
„Þetta er búið að vera í bígerð í 20 ár síðan ég byrjaði í bransanum. Við erum að vonast til að við séum alltaf komin eitthvað nær einhverjum stað sem við viljum vera á. Að sjálfsögðu erum við með þann draum að við séum að sjá flug 1-2 í viku, 52 vikur á ári. Með erlenda túrista. Af hverju ættu þeir að vera að koma norður og keyra einhverjar heiðar í stórhríð?“