Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Talinn vera höfuðpaur í umfangsmiklu fjársvikamáli

26.10.2021 - 11:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
15 eru með réttarstöðu sakbornings í tengslum við rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á umfangsmiklum fjársvikum, peningaþvætti og skjalafalsi. Fólkið er grunað um að hafa stofnað til reikningsviðskipta við tugi fyrirtækja og svikið þau. Mánaðarlöng síbrotagæsla yfir Sigurði Inga Þórðarsyni, grunuðum höfuðpaur í málinu, var nýverið framlengd um fjórar vikur til viðbótar.

Fyrirtækin sem fólkið er grunað um að hafa svikið eru af öllum stærðum og gerðum; allt frá sjoppum til fjármálafyrirtækja, eftir því sem fréttastofa kemst næst.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir að málið sé til rannsóknar og að tugir milljóna séu undir.  „Við erum að bíða eftir gögnum frá fyrirtækjum sem hafa lent í þessum mönnum.“  

Stundin greindi frá því í byrjun mánaðarins að Sigurður Ingi Þórðarson hefði verið úrskurðaður í fjögurra vikna síbrotagæslu. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var það úrræði framlengt nýverið um fjórar vikur til viðbótar.

Sigurður Ingi á að baki langan sakaferil. Hann var mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum hér á landi og erlendis fyrir nokkrum árum vegna tengsla sinna við Wikileaks og bandarísku alríkislögregluna FBI og kom meðal annars á fund allsherjar-og menntamálanefndar Alþingis.

Fyrir sjö árum var hann dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn 17 ára pilti og sama ár hlaut hann tveggja ára dóm fyrir fjársvik og fleiri brot í Héraðsdómi Reykjaness. Í því máli var honum meðal annars gefið að sök að hafa þóst vera Julian Assange.

Rúmu ári seinna var hann sakfelldur í einu umfangsmesta kynferðisbrotamáli seinni tíma þegar hann fékk þriggja ára fangelsisdóm fyrir kynferðisbrot gegn níu drengjum.  Hann játaði að hafa tælt fimm pilta á aldrinum 15 til 16 ára, hátt í 60 sinnum, með margvíslegum blekkingum.  

Fram kom í fjölmiðlum á síðasta ári að Sigurður Ingi væri lykilvitni í máli bandarískra stjórnvalda gegn Julian Assange.  Í baráttu sinni hefur Wikileaks einmitt bent á að Sigurður Ingi sé margdæmdur glæpamaður.

Í viðtali við Stundina fyrr á þessu ári sagðist Sigurður Ingi hafa logið til um ásakanir sem bandarísk yfirvöld hafa notast við í ákæru sinni gegn Assange. Og Edward Snowden, uppljóstrari, sagði þau ummæli marka endalok málsins gegn Assange.