„Stundum langaði mig ekkert að lifa lífinu“

Mynd: RÚV / RÚV

„Stundum langaði mig ekkert að lifa lífinu“

26.10.2021 - 15:20

Höfundar

„Átján ára var ég lögð í fyrsta sinn inn á geðdeild í Fossvogi og það var lífsreynsla út af fyrir sig,“ segir baráttukonan Unnur Hrefna Jónsdóttir sem greindist á blómaskeiði lífsins með geðhvarfasýki og flogaveiki. Á tímabili missti hún vonina en fann hana aftur, enda hefur hún alla tíð trúað á styrkleika sinn og lífskraft.

Unnur Hrefna Jónsdóttir er fimmtug, Reykvíkingur í húð og hár og alin upp í Breiðholti. „Ég er einkadóttir mömmu minnar, Huldu Hauksdóttur, sem er stoð mín og stytta í lífinu. Hún er besti vinur minn, kletturinn og miðjan í sólkerfinu mínu,“ segir Unnur í einlægu viðtali í þættinum Dagur í lífi sem var á dagskrá á RÚV á sunnudag. Foreldrar Unnar skildu þegar hún var sex ára og hún er alin upp hjá móður sinni að mestu leyti. Móðir hennar vann þrjár vinnur þegar mest var og sá til þess að mæðgurnar skorti aldrei neitt.

Keppnisskapið hefur hjálpað alla tíð

Hún var iðin sem barn, gekk vel í skóla og stundaði boltaíþróttir af kappi. „Í handbolta var ég markmaður og það er nokkuð sem ég hef þurft að gera í lífinu, að verjast,“ segir Unnur þegar hún lítur til baka. „Ég reyni alltaf að sækja fram og sigra ef ég mögulega get. Þetta keppnisskap hefur hjálpað mér mikið í lífinu, ég hætti aldrei en held áfram þar til allavega hálfur sigur er unninn.“

Gekk illa að ráða við lífið eftir veikindin

Hún fór í MR ásamt vinkonum sínum og gekk vel fyrstu tvö árin í skóla þar sem hún undi sér vel. „En svo kom babb í bátinn,“ rifjar hún upp. Þá greindist hún með geðhvarfasýki og flogaveiki og hafa sjúkdómarnir fylgt henni síðan.

„Átján ára var ég lögð í fyrsta sinn á geðdeild í Fossvogi og það var lífsreynsla út af fyrir sig,“ segir Unnur. Fljótlega fannst henni sem tilveran yrði henni um megn. „Mér gekk illa að höndla lífið og stundum langaði mig ekkert að lifa lífinu. Þetta kom sem þruma úr heiðskíru lofti, mér gekk vel í öllu sem ég tók mér fyrir hendur og átti góða vini. Var ekki félagslega einangruð en allt í einu finn ég fyrir rosalegum þyngslum í höfðinu og sársauka í hjartanu sem ég hafði aldrei þekkt áður.“

Skólayfirvöld og bekkjarfélagar sýndu veikindunum ekki skilning

Skólafélagarnir og jafnvel kennarar í Menntaskólanum í Reykjavík áttu erfitt með að skilja sveiflurnar, flogin og áhrif þeirra á Unni. Rektor boðaði hana á fund vegna mætingar og þegar Unnur útskýrði að hún glímdi við veikindi kvaðst hann vonast til þess að hún sæi til sólar. „En ég var ekki ánægð með hvernig skólinn tók á þessu, þau voru ekkert sérlega hjálpsöm,“ segir Unnur. „Ég átti bara að bjarga mér og ég gerði það.“

Unnur Hrefna segir sögu sína í þættinum Dagur í lífi sem var á dagskrá á RÚV á sunnudag. Hér er hægt að horfa á allan þáttinn í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Lamaðist fyrir neðan háls og sá engan tilgang lengur