Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Selja börnin sín í örvæntingu til þess að lifa af

Mynd: BBC / BBC
Milljónir Afgana standa frammi fyrir hungurdauða ef mannúðaraðstoð berst ekki fljótlega. Örvænting fólks er orðin svo mikil að foreldar selja börnin sín til þess að lifa af.

Usman litli er sex mánaða gamall. Hann er einn af mörgum börnum í Afganistan sem þjást af vannæringu. „Þjáningar hans eru þjáningar mínar. Guð einn veit hvað ég þjáist þegar ég sé hann svona. Tvö barna minna horfast í augu við dauðann af því ég á ekki neina peninga. Ég vil að þjóðir heims hjálpi Afgönum. Ég get ekki hugsað mér að mæður þurfi að horfa upp á börn sín svona,“ segir móðir Usmans í viðtali við BBC. 

Seldu dóttur sína fyrir 500 dollara

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna telur að meira en helmingur afgönsku þjóðarinnar þjáist af hungri, um 22,8 milljónir manna. Og fram undan eru erfiðir vetrarmánuðir. Fólk reynir að selja eigur sínar til að eiga fyrir mat og dæmi eru um að foreldrar selji jafnvel börnin sín. Foreldrar þessarar litlu stúlku seldu hana fyrir 500 dollara, sem dugir þeim til uppihalds í nokkra mánuði. „Hin börnin mín voru að verða hungurmorða, svo að við urðum að selja dóttur okkar. Hún er barnið mitt. Ég vildi að ég hefði ekki þurft að selja hana,“ segir móðir stúlkunnar. 

Yogita Limaye, fréttamaður BBC, sem ræddi við foreldrana segir erfitt að koma því í orð hversu mikil neyðin er. Eftir að Talíbanar tóku völdin í Afganistan hefur minna borist af aðstoð frá öðrum ríkjum, fjármunir sem til dæmis hafa haldið uppi heilbrigðiskerfinu. En það er ekki eina ástæða þess að landið stefnir nú hraðbyri í eina verstu mannúðarkrísu heims. „Alvarlegir þurrkar í tvö ár af þremur. Umtalsverður vergangur fólks innanlands og utan, sem og efnahagslegt hrun. Þetta hefur ýtt Afgönum út í núverandi aðstæður,“ segir Hsiaowei Lee, yfirmaður WFP í Afganistan.

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV