Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Segja fíkniefnasölu hafa færst á vefinn í faraldrinum

26.10.2021 - 18:03
epa09547019 Chief Postal Inspector Gary Barksdale of the U.S. Postal Service, with Deputy Attorney General Lisa O. Monaco (L) and Deputy Executive Director Jean-Philippe-Lecouffe of Europol (R), delivers remarks on Operation Dark HunTor during a press conference at the Department of Justice in Washington, DC, USA, 26 October 2021. The Department of Justice joined Europol to announce the results of Operation Dark HunTor, a coordinated international effort on three continents to disrupt opioid trafficking on the Darknet.  EPA-EFE/SHAWN THEW
Gary Barksdale yfirmaður pósteftirlits hjá Bandarísku póstþjónustunni, Lisa O. Monaco aðstoðar dómsmálaráðherra Bandaríkjanna og Jean-Phillippe-Lecouffe, aðgerðastjóri hjá Europol á blaðamannafundi í Washington í dag.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Lögregluyfirvöld í Evrópu og Bandaríkjunum tilkynntu í dag um handtökur á 150 manns sem grunaðir eru um að hafa keypt og selt umtalsverðan fjölda af vopnum, fíkniefnum og öðrum ólöglegum varningi á djúpvefnum, sem ekki er sýnilegur almennum netnotendum.

Europol og bandarísk yfirvöld segja að lagt hafi verið hald á tugi milljóna evra í reiðufé og rafmynt í aðgerðunum sem hafa haft tíu mánaða aðdraganda. Á meðal þeirra sem voru handteknir eru sagðir vera umsvifamiklir sölumenn falsaðra lyfja, sem sum hafa verið blönduð með hættulegum efnum eins og fentanyl.

Flestir voru handteknir í Bandaríkjunum, alls 65. Í Þýskalandi voru 47 handteknir, 24 í Bretlandi og restin í Búlgaríu, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu og Sviss. 

Lögreglan sýni hvers hún er megnug

„Tilgangurinn með aðgerðum eins og þessum er að gera glæpamönnum sem halda úti starfsemi á djúpvefnum ljóst að lögregluyfirvöld hafi bæði burði og alþjóðlegt samstarf til að fletta ofan af þeim og draga þá til ábyrgðar, “ segir Jean- Philippe Lecouffe, stjórnandi aðgerða hjá Europol á blaðamannafundi í Washington í dag. 

Bandarísk yfirvöld greindu frá því á blaðamannafundinum að viðskipti með ólögleg lyf hefðu færst í auknum mæli yfir á djúpvefinn í kórónuveirufaraldrinum. Ekki aðeins væri verslað með kókaín, amfetamín og alsælu heldur einnig algeng lyfseðilskyld lyf á borð við Adderall, Xanax og Oxycontin. Síðarnefndu lyfin hefðu verið blönduð með hættulegum efnum eins og fentanyl og metamfetamíni. 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV