Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Öryggisráðið ræðir ástandið í Súdan

26.10.2021 - 17:44
epaselect epa09546559 Sudanese protester chant near burning tires during a demonstration in the capital Khartoum, Sudan, 26 October 2021. Protests continued in Sudan on 26 October a day after Sudan's military launched a coup attempt and arrested the Prime Minister Abdalla Hamdok and other senior ministers and civilian members of the Transitional Sovereignty Council during early morning raids. According the reports seven people were killed and 140 were injured at the country.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur verið boðað til fundar síðar í dag vegna valdaráns hersins í Súdan. Forsætisráðherra landsins og fleiri ráðherrum og embættismönnum er haldið í stofufangelsi. Æðsti yfirmaður hersins neitar því að um valdarán hafi verið að ræða; einungis hafi þurft að rétta af stefnuna í átt til lýðræðis.

Sameinuðu þjóðirnar, Afríkusambandið, Evrópusambandið og leiðtogar margra þjóða, svo sem Bandaríkjanna og Bretlands, hafa mótmælt aðgerðum hersins. Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, ítrekaði í dag kröfu sína um að Abdalla Hamdok forsætisráðherra yrði sleppt úr haldi þegar í stað. Hann sagði að landfræðipólitískar aðstæður vegna heimsfaraldursins kæmu í veg fyrir að öryggisráðið gæti gripið til harðra aðgerða við aðstæður sem þessar. Það þýddi þó ekki að herstjórar gætu hegðað sér hvernig sem er átölulaust, eins og í Mjanmar og nokkrum Afríkuríkjum.

Abdel Fattah al-Burhan hershöfðingi, æðsti yfirmaður súdanska hersins, sagði í dag að Hamdok forsætisráðherra og eiginkonu hans væri haldið heima hjá honum. Þau yrðu látin laus þegar um hægðist. Sómalska ríkisstjórnin krafðist þess í dag að Hamdok og öðrum ráðherrum yrði sleppt þegar í stað.

Netsamband var rofið þegar herinn tók völdin í Súdan í gær. Því hefur enn ekki verið komið og símasamband er stopult. Ríkisútvarpið hefur frá því í gær útvarpað baráttusöngvum. Öllu millilandaflugi hefur verið aflýst til laugardags.

Sendiherrar Súdans í Belgíu, Sviss og Frakklandi fordæmdu valdaránið í dag í sameiginlegri yfirlýsingu. Þeir sögðu að sendiráðin tilheyrðu sómölsku þjóðinni og að sendinefndirnar ynnu fyrir hana og lýðræðisbyltinguna í landinu.

Joseph Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði í yfirlýsingu í dag að aðgerðir sómalska hersins græfu undan vinnunni við að koma á lýðræði í Súdan. Hann hótaði að fjárveitingum til Súdans yrði hætt ef fyrri stjórnskipan yrði ekki komið á sem fyrst. Bandaríkjastjórn hótar einnig að hætta við 700 milljóna dollara fjárstuðning sem til stóð að stjórnvöld í Súdan fengju. Antony Blinken sagði af því tilefni að aðgerðir hersins væru svik við súdönsku þjóðina.