Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Nítján leitað til neyðarmóttöku vegna hópnauðgunar

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Nítján hafa leitað til neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis, vegna hópnauðgunar, það sem af er árinu. Það þýðir að gerendur eru tveir eru fleiri. Verkefnastjóri á neyðarmóttökunni segir fjölgunina ógnvænlega.

Fréttablaðið fjallar um málið í dag en heildarmálafjöldi fyrir þolendur kynferðisofbeldis er nú orðinn meiri en var allt síðasta ár eða 131. Flest þeirra sem leita til neyðarmóttöku eru á aldrinum 18 til 25 ára.

Eins hefur þeim brotum fjölgað sem vinur eða kunningi fremur. Haft er eftir Hrönn Stefánsdóttur hjúkrunarfræðingi og verkefnastjóra á neyðarmóttökunni það geti orðið mjög erfitt fyrir brotaþola að kæra vin, kunningja eða jafnvel fjölskyldumeðlim.

Hún segir það geta verið eina ástæðu þess hve fá mál endi hjá lögreglu. Hún segir að fjölgunin sé ógnvænleg. Kynferðisofbeldi veki upp ótta og valdi brotaþolum áfalli sem sé ennþá meira við hópnauðganir.

Þá sé allt vald tekið af þeim sem fyrir árásinni verði. Hún segir misjafnt hve hóparnir eru fjölmennir en bendir á að þeir sem fylgist með án beinnar þátttöku teljist einnig meðsekir.