Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Líklegast að sjúklingurinn hafi smitast af aðstandanda

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Fjórir sjúklingar á hjartaskurðdeild Landspítalans greindust með COVID-19 í gær. Már Kristjánsson yfirlæknir segir líklegast að heimsóknargestur hafi smitað sjúklingana, sem allir gengust nýlega undir opna hjartaaðgerð.

„Það var þannig að það kom upp grunur um smit á sunnudagskvöldið og sýnataka sem fór fram þá leiddi í ljós smit hjá einum sjúklingi á mánudaginn.“

Þá var gerð víðtæk skimun innan deildarinnar og þrír aðrir sjúklingar greindust en engir starfsmenn. „Það er talið líklegt að smit hafi borist inn með heimsóknargesti,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir.

Húsnæði Landspítala ófullnægjandi

Eru tvíbýli á deildinni? Hvernig smita sjúklingarnir hver annan? „Það er annars vegar tvíbýli og hins vegar einbýli og svo er það líka þannig að það eru einstaklingar sem eru með sameiginlega notkun á salernum, það er líklegasta skýringin, en ég get ekki fullyrt um það,“ segir Már. „Það er kunnara en frá þurfi að segja að húsnæði Landspítala er ófullnægjandi með tilliti til sýkingavarna á svo margan hátt. Meðal annars í því að það eru of fá salerni.“

Allir sjúklingarnir fremur veikir

Már segir að það sé meginregla að sjúklingar séu skimaðir áður en þeir eru lagðir inn á legudeild. Þá sé grímuskylda á spítalanum. Hann telur að sjúklingarnir séu bólusettir. „Allir sem leggjast inn á hjarta- og brjóstholsskurðdeild hafa venjulega undirgengist opna hjartaaðgerð. Eðli málsins samkvæmt eru þeir allir fremur veikir.“

Már segir að staðan á spítalanum þyngist eftir því sem smitum fjölgar. Ráðið þið við þetta? „Þetta er orðin mjög þung staða. Það eru margir sem liggja inni á bráðadeildum spítalans. Það helgast meðal annars af því að eins og málin standa í dag erum við með tvær legudeildir á spítalanum sem eru með skerta starfsemi vegna covid; smitsjúkdómadeildin og hjarta- og lungnadeildin sem er lokuð fyrir innlögnum.“