Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lesandi hrifinn úr stofunni inn í erfiðan veruleika

Mynd: Aðsend/Forlagið / Samsett

Lesandi hrifinn úr stofunni inn í erfiðan veruleika

26.10.2021 - 12:22

Höfundar

„Það er þessi spenna sem knýr þessa sögu áfram, við hin erum í stílnum á einhvers konar heimavelli, en þessi veruleiki er samt eins og hann er, og við ættum að fyrirverða okkur fyrir það, af því við vitum að þarna er engum orðum ofaukið um tilveru margra í okkar samfélagi,“ segir Gauti Kristmannsson sem rýnir í leiksöguna Systu megin eftir Steinunni Sigurðardóttur.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Sárafátækt er orðin sjáanleg á Íslandi eins og svo víða. Ein ástæðan er sú að eftir að skilagjald kom á drykkjarumbúðir sjáum við stundum til fólks sem er að safna þeim upp úr sorpílátum borgarinnar. Vafalaust fær það einhverjar lúsarbætur eða fjárhagsstuðning, en það gerir þetta í von um að ná endum saman. Ég hygg að fæst okkar reyni að setja sig í spor þessa fólks, við höldum bara áfram göngunni með hundinn eða stígum á bensíngjöfina til að komast á næsta stað, eða þess vegna heim þar sem við erum með mat í ísskápnum og getum ornað okkur við heita ofna. Með þessari nýjustu skáldsögu, eða öllu heldur leiksögu, eins og segir á titilsíðunni, Systu megin, gerir Steinunn Sigurðardóttir nákvæmlega það, að setja sig og lesendur í spor bláfátækrar konu, sem lítur á dósasöfnunina sem vinnu og reynir að draga fram lífið með henni. Steinunn hefur áður kannað líf utangarðsfólks, eins og það er stundum kallað, til að mynda í Berlínarsögunni Jójó, en Systa í þessari sögu er þó ekki alveg heimilislaus, hún býr í ósamþykktri kjallaraholu við Lokastíg þar sem hún hefur ekki aðgang að vatnssalerni eða baði.

Bygging sögunnar er forvitnileg, blanda af prósa í fyrstu persónu söguhetjunnar og stuttra leikþátta á milli sem eru beinlínis í framhaldi af viðburðum frásagnarinnar, þótt hún fari líka fram og aftur í tíma og innihaldi vangaveltur sögukonunnar. Þetta er svolítið sérkennileg lestrarupplifun, ekki síst þar sem við vitum miklu meira hvað fer fram í huga aðalpersónunnar, en við sjáum að mestu aðeins orð og gerðir hinna, sem þó fá sínar lýsingar í prósatextanum. Persónurnar eru líka dregnar fremur grófum dráttum, allt að því naívískum og virðist það vera í samræmi andlegt ástand Systu, sem lýsir sjálfri sér sem fávita. Sýn hennar á eigin örlög er að mörgu leyti bernsk og um leið stóísk. Þetta stangast samt á við gullaldaríslensku hennar og fágaðan stíl í frásögninni og skapar þetta spennu, þar sem bæði hún og umhverfi hennar virðast telja hana vera vera einhvern veginn grunnhyggna, en lesandinn sér að það er langt í frá að vera rétt, tungumálið og skarpskyggni hennar á lífið og tilveruna segja okkur aðra sögu.

Aðrar persónur eru nánast erkitýpur af einhverju tagi, faðirinn sálugi heilagt góðmenni, hann var sjómaður og því mikið frá, en sælustundir lífsins í æsku Systu og bróður hennar, Brósa, áttu sér stað þegar hann var í landlegu, því móðirin var og er algjör andstæða hans og minnti helst á vondu stjúpur ævintýranna. Bróðirinn er betur settur efnislega en Systa, hann er hommi og viðkvæm sál, eins og vænta mætti eftir þá barnæsku sem þau upplifðu, og hann er óheppinn í ástum, og laðast kannski að mannfjendum eins og móður sinni. Kærastinn kemur einungis fram í leikþáttunum og hann er ekki fögur sjón af manneskju að vera. Vinkona Systu, Lóló, fyrrverandi hárgreiðslukona og núverandi róni er í ofanálag einfætt og gengur um á tréfæti eins og Langi Jón í Gulleyjunni forðum daga. Systa er kannski eina manneskjan í lífi hennar sem sýnir henni gæsku, því hún er fullkomlega utangarðs að öðru leyti, ekki einu sinni börnin hennar vilja kannast við hana á förnum vegi. Loks má nefna Ketil nokkurn, „með Asíu yfirbragði“ eins og segir í skrá yfir persónur, en hann rekur nokkurs konar vinnuheimili fyrir  konur „óíslenskar útlits“ eins og segir í sömu skrá. Það er eitthvað dickensískt við hann og starfsemi hans, en vinnukonurnar koma fram næstum eins og grískur kór í leikþáttunum. Þar með er persónugalleríið upptalið að frátöldu „jólafólki“ eins og það heitir.

Ljóst má því vera að verkið hverfist um Systu og örlög hennar og hún er sú persóna sem hefur mest af holdi og blóði, þótt eitthvað megi líka finna í Lóló og Brósa. Og örlög hennar eru hræðileg, það fer ekkert á milli mála, og það er áhugavert hvernig þeim er komið til skila með lífsmynstri hennar, vangaveltum bláfátækrar konu sem heldur þó fast í sjálfsvirðingu sína og reynir að bjarga sér sem best hún getur; hvernig hún heldur sitt litla heimili, ekki síst á jólum þegar sagan er að gerast, en einnig almennt í lífinu, hún lítur á dósasöfnunina sem vinnu, og hún hefur fast skipulag á hvernig hún hirðir um sig og sitt fátæklega líf. Hún segir frá því sjálf með fullkomlega ódramatískum hætti, hvernig hún sparar örfáa munnbita af kjöti í hverri viku, fer út að borða á Bæjarins bestu einu sinni í mánuði, í sund til að þrífa sig, í Borgarbókasafnið til að komast á vatnssalerni. Það er með þessu sem höfundi tekst að setja okkur í spor þessarar konu sem hlotið hefur það hlutskipti í lífinu sem flest okkar vildu forðast. Samt á móðir hennar íbúð fjölskyldunnar, bróðirinn virðist vera betur settur, eins og fyrr sagði, það er einhver kaldhæðni fólgin í aðstæðum hennar í ríku samfélagi og hvernig hún tekst á við þær þrár sem við höfum til að lifa það sem okkur finnst vera „eðlilegt líf“, en er engan veginn sjálfsagt. En í því felst einmitt galdurinn í þessari sögu, að velja þessa blöndu einhvers konar naívisma og grjótharðs félagslegs veruleika.

Stíllinn á prósatextanum er mjög vandaður, nánast göfugur í anda íslenskrar stílhefðar, oft hefjast málsgreinar til að mynda á sögnum og það sem á eftir fer er blæbrigðaríkt og ekki skortir orð og hugtök hjá sögukonunni sem greinilega hefur gott vald á íslensku máli. Hún fjallar líka oft um hluti sem eru til tals á líðandi stund þegar hún er að lýsa eigin lífsbaráttu, hvort sem það er um hollustu matvæla eða hvað sé best við gigtinni sem hún hrjáist af. Hún er greinilega meðvituð um hvað samfélagið er að hugsa, þótt hún sé í raun utan þess, ósýnileg innan um annað fólk. Það er þessi spenna sem knýr þessa sögu áfram, við hin erum í stílnum á einhvers konar heimavelli, en þessi veruleiki er samt eins og hann er, og við ættum að fyrirverða okkur fyrir það, af því við vitum að þarna er engum orðum ofaukið um tilveru margra í okkar samfélagi. Vísast er það erindi þessarar bókar, að hrífa okkur úr stássstofunni inn í þann veruleika sem við vitum vel af, en hunsum alla jafna, það gæti nefnilega verið óþægilegt að hugsa um hann í hlýjunni heima.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Hryllilegur þöggunarkúltúr sem hefur gert ómælt ógagn

Pistlar

Klárlega gríðarlegur birkiþrastasveimur - pistill II