Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Kaffihús PEPP enn án húsnæðis - „Fólk er niðurbrotið“

26.10.2021 - 16:45
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Grasrótarsamtökin PEPP fyrir fólk í fátækt, hafa ekki fundið viðeigandi húsnæði fyrir starfsemina. Samtökin tilkynntu í byrjun mánaðarins að vinsælu kaffihúsi þeirra í Mjódd yrði lokað, þar sem húsaleigusamningi þeirra hefði verið sagt upp. Allt innbú þeirra verður flutt í geymslu á morgun og framtíð kaffihússins er óráðin. Ásta Þórdís Skjalddal, samhæfingarstjóri PEPP, segir skjólstæðinga þeirra miður sín yfir að missa athvarf sitt.

„Það eru margir búnir að koma og banka á dyrnar og tala við okkur á meðan við höfum verið að pakka niður. Fólk er eiginlega bara niðurbrotið“ segir Ásta.

„ Það kemur svo skýrt fram núna þegar búið er að loka hversu mikils virði þetta var fyrir fólkið okkar. Þetta snerist ekki bara um að koma og fá eitthvað, kaffi og frítt með kaffinu, heldur snerist þetta um að eiga athvarf“ segir Ásta.

Velja milli „skástu ókostanna“

 Hún segir stærstu hindrunina hafa verið að finna húsnæði þar sem bæði er gott aðgengi og góðar samgöngur.

„Við erum að taka á móti þannig hópi að bæði samgöngur og aðgengi þarf að vera í lagi. Þetta húsnæði sem við vorum í hentaði okkur svo afskaplega vel fyrir þessa starfsemi“ segir Ásta. „Við erum að horfa til bráðabirgðahúsnæðis, en erum að velja á milli hvaða ókosti við getum sætt okkur við“.

Hún segir þau þó standa föst á því að samtökin muni starfa áfram og bindur vonir við að viðeigandi húsnæði finnist fyrir kaffihúsið í bráð.