Jólabjór úr rauðkáli og grænum baunum

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Jólabjór úr rauðkáli og grænum baunum

26.10.2021 - 13:18

Höfundar

„Þetta er eitthvað sem er ómissandi á jólunum hjá mér og svo ótal mörgum öðrum þannig að það lá beint við að setja rauðkálið og grænu baunirnar út í bjórinn," segir Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari hjá RVK bruggfélagi en einn af jólabjórunum þar í ár er svokallaður ORA bjór.

„Jólabjóravertíðin er tími til að fara út fyrir rammann og gera eitthvað pínu galið. Við höfum svosem prófað ýmislegt, jólabjór úr jólatrjám úr Þverárhlíð er eitt. Svo höfum við í gegnum tíðina sett ýmislegt í tankinn, eins og kókópuffs og harðfisk svo fátt eitt sé nefnt. Sumt virkar betur en annað en þetta er alveg að virka. Rauðkálið og baunirnar hafa góð áhrif bæði á áferðina og bragðið, finnst mér allavega," segir Valgeir.