Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fyllsta ástæða til að hafa áhyggjur af þróun faraldurs

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Fjórtán daga nýgengi covid-smita innanlands er 230 á hverja 100.000 íbúa, sem er með því mesta sem sést hefur síðan faraldurinn hófst, að því er fram kemur í pistli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis á covid.is. Hann segir að fyllsta ástæða sé til að hafa áhyggjur af fjölgun smita.

Í pistlinum segir sóttvarnalæknir að fjölgun smita síðustu vikur hafi verið nokkuð hröð. Smitin hafi verið greind í svo til öllum landshlutum og að um helmingur hafi verið í sóttkví við greiningu og um helmingur bólusettur. Áttatíu smit voru greind í gær. 

Fjölgun smita eftir afléttingar

„Fyllsta ástæða er til að hafa áhyggjur af núverandi þróun COVID-19 á Íslandi. Með vaxandi afléttingu takmarkana þá hefur dreifing smits aukist og greinilegt að einstaklingsbundnar sóttvarnir duga ekki til að halda faraldrinum í skefjum,“ segir sóttvarnalæknir í pistlinum. Þó að útbreidd bólusetning komi í veg fyrir smit og einkum alvarleg veikindi virðist hún ekki duga til að stöðva þá bylgju sem nú sé í gangi né heldur að koma í veg fyrir innlagnir alvarlegra veikra, segir í pistlinum. 

Helmingur covid-sjúklinga á LSH bólusettir

Ellefu liggja á Landspítala með Covid-19, þar af einn á gjörgæsludeild og hefur innlögnum þangað fjölgað. Síðustu vikur og mánuði hafa um tvö prósent þeirra sem greinast þurft að leggjast inn á sjúkrahús. 0,4 prósent hafa verið lögð inn á gjörgæsludeild og um 0,2 prósent hafa þurft aðstoð öndunarvéla. Um helmingur innlagðra var full bólusettur.

Þá hvetur sóttvarnalæknir alla til að huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum svo síður þurfi að koma til opinberra takmarkana á umgengni fólks. „Munum að margar innlagnir á sjúkrahús koma ekki einungis niður á umönnun þeirra sem veikst hafa alvarlega af COVID-19 heldur einnig annarri mikilvægri þjónustu,“ skrifar hann.